Andlit lesturs og læsis

Fréttir

Landsliðskonan Fanndís og tónlistarmaðurinn Friðrik Dór eru lestrarsendiherrar Hafnarfjarðar 2016. Þau eru flottar fyrirmyndir og ætla að vera hafnfirskum börnum hvatning til framfara og aukins árangurs á sviði lestrar og læsis

Fanndís Friðriksdóttir og Friðrik Dór Jónsson voru í dag, á opnunarhátíð Bóka- og bíóhátíðar Hafnarfjarðar, útnefnd lestrarsendiherrar Hafnarfjarðar 2016.  Er þetta í fyrsta sinn sem þessi titill er veittur í Hafnarfirði og á landsvísu svo vitað sé. Titilinn koma þau til með að bera út þetta ár og vera andlit lesturs og læsis fyrir hafnfirsk börn og þeim fyrirmynd og hvatning til framfara og aukins árangurs á lestrarsviðinu.

Lestrarsendiherrar Hafnarfjarðar 2016 voru kynntir til sögunnar á sérstakri opnunarhátíð Bóka- og bíóhátíðar barnanna í Hafnarfirði í Bæjarbíói nú í morgun. Rúmlega 100 börn á aldrinum 4-7 ára voru viðstödd opnunarhátíðina auk annarra gesta þar sem Lestrarsendiherrarnir lásu fyrir börnin síður úr uppáhalds barnabókinni sinni, spiluðu lag og spjölluðu við þau um mikilvægi lesturs. Lestrarsendiherrar Hafnarfjarðar munu út þetta ár vera hafnfirskum börnum og foreldrum fyrirmynd og hvatning á sviði lesturs og læsis.

Ætlar að nýta keppnisskapið í lesturinn

Fanndís Friðriksdóttir er 26 ára gömul og ein reyndasta knattspyrnukona landsins, hefur spilað með meistaraflokki í rúm tíu ár og er í dag landsliðskona í fótbolta. Fanndís, sem býr í Hafnarfirði og stundaði nám í Áslandsskóla, er keppnismanneskja í húð og hár og ætlar á komandi mánuðum að deila keppnisskapi í lestri með hafnfirskum börnum.  Hún er í dag fyrirmynd á fótboltavellinum og ætlar nú einnig að gerast öflug og flott fyrirmynd í lestri og læsi. „Þegar æfingu lýkur er fátt betra en að fá sér hollan og góðan mat, skella sér í pottinn eða heita sturtu og leggjast svo upp í sófa með góða bók. Bókin tæmir hugann og færir mann í allskyns ævintýraheima sem maður myndi annars seint kynnast“ segir Fanndís. Uppáhaldsbók Fanndísar þegar hún var lítil er bókin Dúrilúri – forvitni kötturinn.

Fyrirmynd dóttur sinnar í lestri

Friðrik Dór er 27 ára sannkallaður Hafnfirðingur, fæddur og uppalinn í Firðinum og er þessa dagana að flytja aftur heim í Fjörðinn með fjölskyldu sinni, konu og 2 ára gamalli dóttur. Friðrik Dór er helst þekktur fyrir tónlistarhæfileika sína, leikgleði og framkomu sem heillar unga sem aldna.  Hann hóf tónlistarferil sinn með hafnfirsku hljómsveitinni Fendrix, þá í áttunda bekk í Setbergsskóla. Í sama skóla lærði hann að lesa, skrifa og reikna og hefur með árunum lært listina að njóta þess að lesa. Í dag er hann fyrirmynd dóttur sinnar í lestri og veit fátt betra en að eiga huggulega stund með henni heima við við lestur á skemmtilegri bók með stórum og flottum myndum. Friðrik Dór er mikill áhugamaður um Harry Potter og bíður enn spenntur eftir næstu bók. 

Bóka- og bíóhátíð barnanna í Hafnarfirði

Þessi nýja menningarhátíð, sem stendur yfir í eina viku, er nú haldin í fyrsta skipti og endurspegla viðburðir vikunnar áherslu á bækur og kvikmyndir og skapandi og skemmtileg verkefni sem tengjast hvoru tveggja. Tilgangur hátíðarinnar er að efla áhuga barna enn frekar á lestri og læsi í víðum skilningi og mun hátíðin styðja við læsisverkefni leik- og grunnskóla bæjarins sem í gangi hefur verið síðustu misseri. Hátíðin er haldin í nánu samstarfi Hafnarfjarðarbæjar við Bókasafn Hafnarfjarðar, grunnskóla, leikskóla, Hafnarborg, Byggðasafn, Bæjarbíó, Verslunarmiðstöðina Fjörð og fleiri aðila.

Yfirlit yfir viðburði hátíðar að finna hér eða á Facebooksíðu hátíðarinnar,

Ábendingagátt