Ásvallabraut komin á dagskrá – Samgöngubót fyrir íbúa í Vallahverfinu

Fréttir

Á fundi Bæjarstjórnar Hafnarfjarðar sem nú stendur yfir var deiliskipulag fyrir Ásvallabraut, vegur sem tengir saman  Ásland og Velli, samþykkt.

Á fundi Bæjarstjórnar Hafnarfjarðar sem nú stendur yfir var deiliskipulag fyrir Ásvallabraut, vegur sem tengir saman  Ásland og Velli, samþykkt.

„ Ásvallabrautin er mikil samgöngubót, ekki bara fyrir akandi heldur líka fyrir göngu- og hjólreiðafólk en samhliða brautinni verða lagðir hjólastígar. Nú standa yfir viðræður við Landsnet um færslur á rafmagnslínum sem liggja í jaðri Vallahverfisins, tilfærslan á  línunum og Ásvallabrautin opnar nýja möguleika fyrir hverfið og gerir okkur kleift að hefja uppbyggingu á ný í Skarðshlíðinni “ segir Ólafur Ingi Tómasson formaður skipulags- og byggingaráðs.

Þrettán ár eru liðin síðan fyrsti íbúinn flutti inn í Vallahverfið. Hverfið hefur byggst hratt upp og nú búa þar um 4900 manns. Vellirnir eru hverfi sem hefur upp á allt að bjóða, á svæðinu er þjónusta, sundlaug, íþróttamiðstöð og öflugt skólasamfélag.

Með tilkomu Ásvallabrautar tengjast Vellirnir við Áslandið. Brautin mun liggja frá Lindartorgi sem er síðasta hringtorg á Ásvallabraut á Ásvöllum yfir hrygg milli Ásfjalls og Vatnshlíðar sem eru þekkt kennileiti á svæðinu og tengist Kaldárselsvegi um gatnamót Brekkuáss.

„ Með þessu tengjum við saman tvö nýjustu hverfi bæjarins og erum komin með braut sem mun þjóna byggingarsvæðum sem fyrirhuguð eru í framtíðinni „ segir Ólafur Ingi.

Ásvallabrautin verður boðin út á vormánuðum og er áætlað að verkinu ljúki árið 2017.

Ábendingagátt