Aukinn stuðningur við syrgjendur

Fréttir

Sorgarmiðstöðina hefur fengið styrk frá mennta- og barnamálaráðuneytinu, heilbrigðisráðuneytinu og félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu til að auka stuðning við syrgjendur. Með styrknum verður aðgengi fólks að ráðgjafasamtölum, stuðningshópastarfi og jafningjastuðningi Sorgarmiðstöðvar aukið.  

Liður í stefnu stjórnvalda í geðheilbrigðismálum til 2030  

Mennta- og barnamálaráðuneytið, heilbrigðisráðuneytið og félags- og vinnumarkaðsráðuneytið hafa gert samning við Sorgarmiðstöðina um aukinn stuðning við syrgjendur. Styrkurinn mun auka aðgengi fólks að ráðgjafasamtölum, stuðningshópastarfi og jafningjastuðningi Sorgarmiðstöðvarinnar. Sorgarmiðstöðin mun auk þess halda áfram að styðja við innleiðingu áfallamiðaðrar nálgunar í skólum og nærsamfélagi barna og efla kennara og umsjónaraðila barna í viðbrögðum við sorg og missi. Sorgarmiðstöðin er í hópi þeirra samtaka og fyrirtækja sem aðsetur hafa í Lífsgæðasetri St. Jó á Suðurgötu í Hafnarfirði. 

Mennta- og barnamálaráðuneytið, heilbrigðisráðuneytið og félags- og vinnumarkaðsráðuneytið hafa gert samning við Sorgarmiðstöðina um aukinn stuðning við syrgjendur.

Samkvæmt samningnum mun Sorgarmiðstöðin einnig bjóða upp á: 

  • fræðsluerindi um sorg og sorgarviðbrögð barna í forvarnaskyni. Það miðar að því að styrkja skóla-, íþrótta- og tómstundastarf í vinnu sinni með börnum í sorg 
  • snemmtæka þjónustu þegar andlát hefur orðið í skólaumhverfinu. Hún felst í því að fagaðilar veiti stjórnendum og starfsfólki í skólum stuðning, fræðslu og ráðgjöf innan 48 klukkustunda frá því að þjónustubeiðni berst 
  • námskeið fyrir börn í sorg á aldrinum 6-15 ára hjá Sorgarmiðstöð. Á námskeiðunum taka foreldrar þátt í upphafi námskeiðs, fá fræðslu um sorg og sorgarviðbrögð og ýmis bjargráð 
  • stuðningshópastarf fyrir foreldra barna 

Sorgarmiðstöð byggir sína þjónustu á þekktum og reyndum úrræðum í sorgarúrvinnslu. Starfið allt miðar að bættri lýðheilsu með því að styðja við andlega, líkamlega og félagslega heilsu barna og fullorðinna eftir ástvinamissi. Miðstöðin er í hópi þeirra félagasamtaka og fyrirtækja sem hafa aðstöðu í Lífsgæðasetri St. Jó og eiga það sammerkt að bjóða upp á margvíslega þjónustu og meðferðir sem auka lífsgæði þjónustuþega. Stuðningurinn nemur samtals 43 milljónum króna á árinu 2024 frá ráðuneytunum þremur. Samningurinn er liður í stefnu stjórnvalda í geðheilbrigðismálum til 2030 sem felur m.a. í sér að bjóða fjölbreytt snemmtæk inngrip og úrræði sem efla geðheilbrigði og draga úr áhrifum áfalla á lífsgæði.  

Heilsa, samfélag og sköpun undir hatti Lífsgæðaseturs St. Jó 

Gamla hús St. Jósefssystra, sem þær byggðu og vígðu formlega 5. september 1926 , er nú lífsgæðasetur. Öll starfsemi þar  miðar að því að efla og auka heilsu, vellíðan og lífsgæði íbúa og vina Hafnarfjarðar með einum eða öðrum hætti. Sorgarmiðstöðin er einn þessara aðila og dvelur undir hatti Lífsgæðaseturs St. Jó með meðal annars sálfræðingum, markþjálfum, félagasamtökum, fræðslusetri, jóga og heilsueflingu fyrir eldri borgara svo fátt eitt sé nefnt.

Ábendingagátt