Aukinn sýnileiki og gagnsæi í umhverfis- og sjálfbærnimálum

Fréttir

Hafnarfjarðarbær hefur gert samstarfssamning við Laufið , fyrstu grænu íslensku upplýsingaveituna. Samningurinn gildir til sex mánaða og felur í sér aðgang að hugbúnaði Laufsins og greiningum auk aðkomu sjálfbærniráðgjafa Laufsins við fræðslu, innleiðingu og ráðgjöf varðandi sjálfbærni.

Fyrst íslenskra sveitarfélaga til að ganga til samninga við Laufið

Hafnarfjarðarbær hefur gert samstarfssamning við Laufið, fyrstu grænu íslensku upplýsingaveituna. Samningurinn gildir til sex mánaða og felur í sér aðgang að hugbúnaði Laufsins og greiningum auk aðkomu sjálfbærniráðgjafa Laufsins við fræðslu, innleiðingu og ráðgjöf varðandi sjálfbærni. Einnig kortlagningu á stöðu mála hjá stofnunum og skólum á vegum sveitarfélagsins. Samhliða samþykkir Hafnarfjarðarbær að útvega Laufinu aðstöðu fyrir kynningarfundi með áhugasömum hafnfirskum fyrirtækjum sem vilja leggja áherslu á sjálfbæra þróun í starfsemi sinni og miðla á gagnsæjan hátt upplýsingum um sjálfbærni, sér og öðrum til hagsbóta. Umhverfismál og sjálfbærni er samstarfsverkefni alls samfélagsins.


Guðbjörg Oddný Jónsdóttir formaður umhverfis- og framkvæmdaráðs Hafnarfjarðar og Vala Smáradóttir vöru- og þróunarstjóri Laufsins handsöluðu samning um samstarf.

Sjálfbær þróun höfð að leiðarljósi við skipulag, framkvæmdir og starfsemi í bæjarlandinu

Eitt af meginmarkmiðum í heildarstefnu Hafnarfjarðar til ársins 2025 er vistvænt samfélag sem tekur m.a. til nýtingu orku og auðlinda á sjálfbæran hátt, vistvæns lífstíls og samgangna, lágmörkunar á losun gróðurhúsalofttegunda og hringrásarhagkerfisins. Meginmarkmiðin eru tengd heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og tengjast beint umhverfis- og auðlindastefnu bæjarins sem samþykkt var á árinu 2018. Hafnarfjarðarbær vill með öllum aðgerðum sínum og grænum skrefum vera í fararbroddi sveitarfélaga á Íslandi í sjálfbærni og við verndun náttúru og auðlinda. Markmiðið er að hafa sjálfbæra þróun að leiðarljósi við skipulag, framkvæmdir og starfsemi í bæjarlandinu.


Hópur fulltrúa Hafnarfjarðarbæjar og Laufsins við undirritun á samningi. Vala Smáradóttir, Guðmundur Elíasson, Árni Rúnar Árnason, Bjarki Pétursson og Guðbjörg Oddný Jónsdóttir.

Fyrsta græna upplýsingaveitan

Laufið er hagnýt verkfærakista sem hefur þann mikilvæga tilgang að stuðla að og ýta undir sjálfbæra þróun opinberra stofnanna og fyrirtækja. Markmiðið er að valdefla neytendur og gefa þeim kost á að taka upplýstar ákvarðanir um neyslu sína eftir því hversu vel stofnanir og fyrirtæki eru að standa sig í sjálfbærni og samfélagslegri ábyrgð. Laufið skiptist í fimm lauf og græn skref sem tengjast meðal annars Heimsmarkmiðunum. Hvert lauf inniheldur skýrar og mælanlegar aðgerðir:

Flokkun úrgangs – flokkun úrgangs á ábyrgan hátt

  • Umhverfisstefna – skýr umhverfisstefna, mótuð af starfsfólki, kynnt hagaðilum og birt á laufid.is
  • Miðlun þekkingar – stutt netnámskeið á vegum Laufsins
  • Loftslagsáhrif – losun gróðurhúsalofttegunda reiknuð og samdráttaráætlun sett fram
  • Hringrásarsamfélag – mótun innkaupstefnu með áherslu á notað umfram nýtt

Grænu skrefin eru 118 talsins og eru sérsniðin að ólíkum þörfum viðskiptavina. Grænu skrefin innihalda hugmyndir að stórum sem smáum umhverfisaðgerðum og skiptast í flokka eins og t.d. mötuneyti, innkaup og orkusparnað. Þær upplýsingar sem fyrirtæki setja inn á vef Laufsins birtast í leitarvél á www.laufid.is sem gerir Laufið að fyrstu grænu íslensku upplýsingaveitunni. Uppbygging og lausnaleit Laufsins hefur tekið rúm tvö ár og hefur verkefnið verið unnið í nánu samstarfi við Umhverfisráðuneyti og Umhverfisstofnun.

Ábendingagátt