Bæjarstjóri hefur heimsótt 70 starfsstöðvar bæjarins 

Fréttir

„Það skiptir miklu máli sem bæjarstjóri að kynnast starfsstöðvunum formlega og óformlega. Ræða við fólk, skilja andann og starfsemina,“ segir  Valdimar Víðisson bæjarstjóri sem hefur náð markmiði sínu og heimsótt um 70 starfsstöðvar bæjarins frá því að hann tók við embætti í byrjun árs.  

Á ferð um bæinn til að efla bæinn 

Blikaás 1, búsetukjarni fyrir fatlað fólk, var síðasta starfsstöðin af þeim um sjötíu sem bæjarstjóri heimsótti í kjölfar þess að hann tók við keflinu nú um áramótin. Valdimar Víðisson segir miklu máli skipta að kynnast starfsstöðvunum formlega og óformlega.  

„Heimsóknirnar voru mjög gagnlegar og áhugaverðar,“ segir hann. „Það er mikilvægt að vera inn í málum og skilja starfsemi hverrar einingar þegar þær koma til umræðu, þá veit ég hvað er verið að tala um – hef mætt á staðinn.“ 

Valdimar segir heimsóknirnar hafa staðfest það sem hann vissi. „Ég er ánægður að sjá að alls staðar er öflugt og gott starfsfólk. Öll eru einhuga um að vinna vel fyrir sveitarfélagið. Gaman var að kynnast því sem ég hafði ekki kynnst áður. Alls staðar vel tekið á móti mér. Góðar móttökur,“ segir hann. Vinnustaðirnir þó sannarlega ólíkir. 

Heimsótti mest fjórar sama daginn 

Valdimar hefur mest heimsótt 4 starfsstöðvar á einum degi en dreift þeim yfir síðustu tíu vikurnar. „Ég byrjaði heimsóknirnar á að spjalla við forstöðufólk og gekk svo um vinnustaðinn og spjallaði við starfsfólk og þjónustuþega þegar það átti við,“ segir hann. Þekkt er að Valdimar var áður skólastjóri Öldutúnsskóla áður en hann tók við bæjarstjórakeflinu. Hann heimsótti alla skólana. 

„Það var gaman að sjá hversu faglegt svigrúm skólarnir fá til að marka sér stefnu. Þeir eru ekki bundnir af því sama og eru ólíkir,“ segir hann. 

Stefnir á fleiri opna fundi með bæjarbúum

Valdimar leggur mikla áherslu á að vera í samskiptum við íbúa og stafsfólk. „Já, ég vil vera í góðri tengingu.“ Hann ritar pistla á Workplace tvisvar í mánuði fyrir starfsfólk og greinir frá stöðu ýmissa verkefna á Facebook-síðu sinni.  

„Með hækkandi sól ætla ég að vera í öðru glerhúsinu á Thorsplani og taka nokkra daga svo hver sem vill geti komið við, bæði gestir og gangandi, og hitt mig,“ segir hann.  

„Ég er svo með þessa föstu tíma á þriðjudögum. Alltaf fullt. Mjög jákvætt. Mér finnst mikilvægt að vera í góðu sambandi við fólk því ég vinn jú bæði með og fyrir Hafnfirðinga.“ 

 

Ábendingagátt