Bærinn hlýtur nýsköpunarverðlaun hins opinbera 2025

Fréttir

Hafnarfjarðarbær hlaut í gær nýsköpunarverðlaun hins opinbera 2025. Bærinn hlaut viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur í opinberri nýsköpun með leiðandi umbótastarfi við stafvæðingu á þjónustu og rekstri sveitarfélagsins.

Framúrskarandi í opinberri nýsköpun

Hafnarfjarðarbær hlaut í gær nýsköpunarverðlaun hins opinbera 2025. Bærinn fékk viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur í opinberri nýsköpun með leiðandi umbótastarfi við stafvæðingu á þjónustu og rekstri sveitarfélagsins.

Valdimar Víðisson bæjarstjóri tók við verðlaununum ásamt þeim Ingvari Högna Ragnarssyni, verkefnastjóra stafrænna verkefna, og Garðari Rafni Eyjólfssyni, kerfisfræðingi með vefumsjón bæjarins.

„Við erum afar þakklát fyrir þessa viðurkenningu. Við erum einmitt á þeirri braut sem við viljum sem er að veita góða og eins fumlausri þjónustu við íbúa og nokkur kostur er. Þetta er ekki hægt nema með starfsfólki sem brennur fyrir því að sníða og innleiða lausnir sem einfalda og bæta þjónustu við íbúa Hafnarfjarðarbæjar,“ segir Valdimar Víðisson um árangurinn.

Frábær árangur í nýsköpun

Fjársýslan veitti verðlaunin og er markmiðið með þeim að veita viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur í opinberri nýsköpun síðastliðna 12 mánuði. Dómnefndina skipuðu fulltrúa fjármála- og efnahagsráðuneytisins, Fjársýslunnar og verðlaunahafar síðasta árs. Ingvar Högni segir teymið stolt að fá þessa viðurkenningu. „Hún hvetur okkur áfram til frekari góðra verka fyrir íbúa. Það næst ekki árangur í svona vegferð nema að allir taki þátt. Þess vegna er vert að þakka starfsfólki Hafnarfjarðar fyrir hversu vel hefur gengið. Við erum hvergi hætt,“ segir hann.

Garðar Rafn tekur undir það. „Það er svo margt sem við höfum gert undanfarið ár. Við settum upp Auði, fyrsta spjallmenni sveitafélaga byggt á gervigreind. Svo endurnýjuðum við alla vefi stofnana bæjarins og Evolve-sjálfvirkni róbótinn okkar er stafrænn starfsmaður sem hefur einfaldað okkur mjög verkin við þjónustu við bæjarbúa.“

Fimm viðurkenningar veittar

Fleiri fengu viðurkenningu síðdegis í gær en alls voru 36  tilnefndir.

  • Bílastæðasjóður hlaut viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur í opinberri nýsköpun með umbreytingu á framkvæmd eftirlits með stöðvunarbrotum
  • Réttarvörslugáttin hlaut viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur í opinberri nýsköpun við stafvæðingu réttarvörslukerfisins gagnvart öllum haghópum þvert á stofnanir dómsmálaráðuneytisins
  • Skatturinn hlaut viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur í opinberri nýsköpun með hagnýtingu gagna og tækninýjunga við eflingu á þjónustu stofnunarinnar við almenning
  • Benedikt Geir Jóhannesson hlaut viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur í opinberri nýsköpun með öflugu einstaklingsframtaki við hagnýtingu gervigreindar í umbótaverkefnum

Ingþór Karl Eiríksson, forstjóri Fjársýslunnar og formaður dómnefndarinnar, veitti verðlaunin.

Hafnarfjarðarbær er stoltur af starfsfólki sínu og frábærri vinnu þess og afar ánægður að eftir þessu góða starfi er tekið. Takk.  

 

 

Ábendingagátt