Bílastæðin í miðbænum verða 60 mínútna stæði

Fréttir

Bílastæði í hjarta Hafnarfjarðar á Strandgötu, Linnetstíg og Vesturgötu eru orðin 60 mínútna skammtímastæði. Öll erum við hvött til að virða regluna svo sem flest geti notið þjónustunnar í miðbænum okkar.

60 mínútna skammtímastæði í miðbænum

Öll stæðin við Strandgötu, Linnetsstíg og á Vesturgötu við Byggðasafnið eru nú 60 mínútna stæði. Öllum 30 mínútna skiltum verður skipt út fyrir 60. Hafnarfjarðarbær hefur skerpt á reglum um skammtímastæði.

Sumarstarfsmaður hefur verið ráðinn til að fylgja reglunni eftir svo stæðin séu ekki nýtt af þeim sömu allan daginn. Séu bílar of lengi í stæðunum minnum við á regluna með miða og hvetjum bílaeigendur til að bregðast við og færa bílinn.

Þúsundir gesta um hverja helgi

Búist er við tugþúsundum gesta á bæjartónlistarhátíðina Hjarta Hafnarfjarðar. Þessar vikur sem veislan stendur yfir verða bílastæðin fyrir aftan Ráðhúsið og Bæjarbíó frátekin fyrir hátíðina. Of tímafrekt er að taka búnaðinn niður milli helga.

Af virðingu við verslanir, veitingastaði og aðra þjónustuaðila í miðbænum hafa reglurnar ekki aðeins verið yddaðar.  Allt starfsfólk sem vinnur hér í miðbænum er eindregið til að leggja bílum sínum lengra í burtu, rölta í vinnuna og leggja sitt af mörkum við að ýta undir að þjónustan gangi snurðulaust.

Bílastæði í næsta nágrenni

Mörg þurfum við að leggja bílnum og vinna. Fjöldi stæða eru fjær miðbænum og gefa færi á göngutúr. Já, nú er að stíga skrefið að betri heilsu, vænlegri verslun, frábærri þjónustu og góðum tónelskum kvöldum hér í Hafnarfirði.

 

Laufléttir möguleikar í næsta nágrenni:
  • 350 metrar eða 7 mínútur: Bílastæði við Menntasetrið við Lækinn
  • 400 metrar eða 6 mínútur: Bílastæði við Hafnarfjarðarkirkju og Tónlistarskóla
  • 700 metrar eða 15 mínútur: Bílastæði við Víðistaðaskóla
  • 750 metrar eða 15 mínútur: Bílastæði við skólann Nú – Reykjavíkurvegi
  • 850 metrar eða 15 mínútur: Bílastæði við Fimleikafélagið Björk
  • 850 metrar eða 15 mínútur: Bílastæði við Lækjarskóla
  • 1100 m eða 16 mínútur: Bílastæði við Flensborgarskólann
Ábendingagátt