Brúarsmiðir – „Við brúum á milli menningarheima“

Fréttir

„Áttu erlendan vin eða erlendan nágranna sem er nýfluttur í bæinn?“ spyrja brúarsmiðir Hafnarfjarðarbæjar sem hjálpa foreldrum af erlendum uppruna að finna út út því hvernig börnin þeirra blómstra í Hafnarfirði.

Brúarsmiðirnir hér fyrir þig

„Áttu erlendan vin eða erlendan nágranna sem er nýfluttur í bæinn? Eru nýir krakkar með erlendan bakgrunn í bekk barnanna þinna? Vissir þú að hér í Hafnarfirði störfum við fimm sem brúarsmiðir. Hvað er það? Jú, við brúum bilið milli menningarheima. Hjálpum nýjum bæjarbúum að fóta sig, skilja menninguna og verða hluti af frábærum bæjarbrag okkar,“ rita brúarsmiðir Hafnarfjarðar í blað Fjarðarfrétta, Hafnfirska æsku, þau Bjarki Rafn Andrésson, Anna Sigríður Sveinbjörnsdóttir og Hemn Hussein brúarsmiðir í grunnskólunum og Elisabeth López Arriaga og Rima Alhakeem í leikskólunum.

„Mikilvægt er að nýju börnin í bænum finni taktinn og kynnist þeim sem búa hér fyrir. Tómstund.is er inni á vef Hafnarfjarðarbæjar. Þar er bent á sumarnámskeið,“ benda þeir á.

„Við brúarsmiðir verðum svo tvo daga á Bókasafni Hafnarfjarðar, dagana 19. og 20. maí milli klukkan 16-18. Þar hjálpum við erlendum foreldrum sem hér búa að skrá börnin sín á námskeið og í vinnuskólann. Þangað má líka koma ef fólk vill svör eða hefur vangaveltur um lífið í Hafnarfirði. Svo er alltaf hægt að koma við í Strandgötu 41 og fá aðstoð á fimmtudögum milli kl. 14-16. Einnig má hafa samband við okkur í gegnum netfangið: bru@hafnarfjordur.is

Við minnum reyndar alla foreldra á frístundastyrkina. Þá má nota líka á sumrin. Já, hér í Hafnarfirði er fjölbreytt tómstundastarf. Það er virkilega gaman að hjálpa fólki að finna réttu tómstundirnar fyrir börnin sín. Hér er allt sem hugurinn girnist.

Hjálpumst að og látum þau vita að við erum hér,“ rita þeir.

Ábendingagátt