Dagur leikskólans er í dag. Til hamingju öll!

Fréttir

Dagur leikskólans er haldinn hátíðlegur þann 6. febrúar ár hvert. Í aðdraganda dagsins og á deginum sjálfum leitast starfsfólk og nemendur leikskólanna í Hafnarfirði við að varpa verðskulduðu ljósi á það mikla og góða starf sem fram fer innan leikskóla landsins. Faglegu starfi sem foreldrum og forsjáraðilum er vel sýnilegt alla daga.

Leikskólar landsins eiga daginn í dag – takk!

Dagur leikskólans er haldinn hátíðlegur þann 6. febrúar ár hvert. Í aðdraganda dagsins og á deginum sjálfum leitast starfsfólk og nemendur leikskólanna í Hafnarfirði við að varpa verðskulduðu ljósi á það mikla og góða starf sem fram fer innan leikskóla landsins. Faglegu starfi sem foreldrum og forsjáraðilum er vel sýnilegt alla daga. Starfsfólk leikskólanna mótar framtíðina með uppbyggjandi og styðjandi starfi og starfsumhverfi fyrir börnin okkar þar sem fagmennska, þróun, vöxtur og vellíðan ræður för.

Heimsókn í Hliðarberg bíður betri tíma

Til stóð að bæjarstjóri, Valdimar Víðisson, myndi heimsækja leikskólann Hlíðarberg í tilefni dagsins ti lað kynan sér starfsemin skólans og hitta börnin en rauð veðurviðvörun hamlaði för og því þarf að finna annan góðan dag fyrir heimsóknina. Á degi leikskólans er vel við hæfi að fagna þeim tímamótaskrefum og breytingum sem leikskólastarfið og starfumhverfi leikskólanna hefur tekið síðustu misserin. Árangurinn er augljós. Leikskólar Hafnarfjarðar eru fullmannaðir og staðan með allra besta móti.

Menntun á fulltrúum framtíðarinnar

„Mikilvægur grunnur og vegvísir barna okkar til framtíðar er lagður innan leikskóla landsins með faglegu og skapandi starfi,“ segir Jenný Dagbjört Gunnarsdóttir, þróunarfulltrúi leikskóla hjá Hafnarfjarðarbæ. Jenný vann sem leikskólakennari og leikskólastjórnandi í 21 ár áður en hún byrjaði í núverandi starfi fyrir rúmum áratug og er hún nú tengiliður leikskólastjóra og starfsfólks 18 leikskóla í bænum við miðlægan stuðning á sviði mennta og lýðheilsu. „Ég á í miklu og virku samtali og samstarfi við kollega á sviðinu og m.a. þar kvikna hugmyndir að framþróun, lausnum og leiðum sem eru málaflokknum til framdráttar. Hafnarfjarðarbær er leiðandi á svo mörgum sviðum og þar held ég að þessi virka hlustun skipti miklu máli og að láta verkin tala.”

Jenný Dagbjört Gunnarsdóttir

Aukinn sveigjanleiki og aukið samræmi milli fyrstu skólastiganna

Hafnarfjarðarbær hefur hin síðustu ár stigið tímamótaskref í eflingu og þróun á leikskólastarfi sveitarfélagsins meðal annars með ákvörðun um aukinn sveigjanleika og aukið samræmi milli fyrstu skólastiganna. Þannig hefur leikskólastarfið verið fært nær starfi grunnskólanna bæði í skipulagi skólaársins og vinnutíma. “Mikil vinna var unnin við útfærslu aðgerða með öllum hlutaðeigandi aðilum þ.m.t. Félagi leikskólakennara. Þegar samþykkt var árið 2019 að eitt leyfisbréf gilti til kennslu á bæði leik- og grunnskólastigi þá fórum við að upplifa flutning á milli skólastiga og fækkun á fagfólki innan leikskólanna. Við höfum um árabil veitt styrki og stuðning til réttindanáms í faginu og margir búnir að nýta sér þann möguleika. Það hefur hjálpað mikið en ljóst að mikilvægt var að stíga enn stærri skref til að snúa þróuninni við,” segir Jenný. Markmiðið með aðgerðum sveitarfélagsins hin síðustu ár hefur verið skýrt, að fjölga fagfólki í leikskólum bæjarins og jafna starfsaðstæður leik- og grunnskóla. Nýtt skipulag fyrir leikskóladaginn í Hafnarfirði tók gildi frá og með 1. september 2024. Starfsemi innan leikskóladagsins er nú tvíþætt með fagstarfi og frjálsum tíma, leikskólagjöld lækkuðu í takti við styttri og sveigjanlegan dvalartíma, leikskóladagatalið varð með innleiðingunni 180 dagar og aðrir dagar sérstakir skráningardagar.

Um Dag leikskólans

Félag leikskólakennara, menntamálaráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga og Heimili og skóli standa fyrir deginum en þann 6. febrúar árið 1950 stofnuðu frumkvöðlar leikskólakennara sín fyrstu samtök. Deginum er einnig ætlað að vekja athygli á stöðu leikskólans, gildi hans fyrir þjóðarauð og alla menningu. Dagurinn er haldinn hátíðlegur um land allt til að vekja sérstaka athygli á leikskólastiginu, mikilvægi þess og gildi fyrir fjölskyldur í landinu og fyrir íslenskt atvinnulíf.

Allt um leikskólana okkar

Ábendingagátt