Fjöldi í fyrsta viðtali við Valdimar á Thorsplani 

Fréttir

Fjölmennt var á fyrsta opna útifundi Valdimars Víðissonar bæjarstjóra á föstudag. Hann færði skrifstofuna á Thorsplan og gátu gestir og gangandi tyllt sér, spjallað og fengið kaffidreitil. 

Bæjarstjóri færði skrifstofuna út 

Íbúar gáfu sér tíma og mættu á fyrsta opna spjallið við Valdimars Víðissonar bæjarstjóra á föstudag. Hann færði skrifstofuna á Thorsplan og gátu gestir og gangandi tyllt sér, spjallað og fengið kaffidreitil og kleinu. Íbúar höfðu margt fram að færa og bæjarstjórinn hlustaði. 

„Ég er ánægður með spjallið. Bæði var það skemmtilegt og gaf mér hugmyndir og líka áminningu um hvað megi fara betur hér í bænum okkar,“ segir Valdimar sem hefur þegar komið ábendingum í réttar hendur innan bæjarins. 

Frábært veður og gott spjall

Veðrið var með afbrigðum gott á föstudag. Því varð að færa aðstöðuna úr glæsilegu glerhýsinu á stéttina fyrir utan. 

„Ég þakka öllum sem komu og hlakka til næsta fundar. Svona samtal skiptir mjög miklu máli, mikilvægt að vera í góðu sambandi við íbúa,“ segir hann. 

Næst fundað á föstudag

Næsti fundur er föstudaginn 23. maí milli kl. 12-14. Ekki þarf að panta tíma heldur einungis mæta. Ekki þarf að uppfylla aldur eða ræða ákveðið málefni. Öll eru velkomin með það sem er þeim efst í huga.  

  • Valdimar býður þegar íbúum viðtalstíma á þriðjudagsmorgnum. Þá þarf að panta tíma í síma 585 5506. 

Nú er tækifæri að hitta hann auglitis til auglitis á Thorsplani. 

 

Ábendingagátt