Fleiri samfélagslöggur vinna með samfélaginu

Fréttir

Samfélagslöggurnar okkar eru orðnar fjórar. Starfið hefur því verið eflt til muna, en þær voru tvær. Löggurnar fara á milli skóla hér í Hafnarfirði og Garðabæ og fræða unga fólkið okkar á mánudögum og þriðjudögum. „Við vinnum með samfélaginu,“ segir Dagný Karlsdóttir samfélagslögga.

Brúum bilið milli íbúa og lögreglunnar

Samfélagslöggurnar okkar eru orðnar fjórar. Starfið hefur því verið eflt til muna, en þær voru tvær, og fara löggurnar okkar á milli skóla hér í Hafnarfirði og Garðabæ og fræða unga fólkið okkar á mánudögum og þriðjudögum. Á vormánuðum heimsóttu samfélagslöggur Hafnarfjarðar alla 7.  bekki í grunnskólum bæjarins og veittu nemendunum fræðslu um ofbeldi, vopnaburð, einelti og hótanir. Nú heimsækja þær 8., 9. og 10. bekk.

Afar vel var tekið á móti Dagnýju Karlsdóttur og Ýr Steinþórsdóttur lögreglukonum þegar þær heimsóttu 8. bekki Öldutúnsskóla nú í morgun. Þær lögðu spurningar fyrir bekkina og fengu nemendurna til að spyrja spurninga og velta fyrir sér starfi þeirra og samfélaginu?

Ýmislegt brennur á unga fólkinu

„Má kæra foreldra fyrir að taka og birta af manni myndir sem maður vill ekki? Hvað er það skrýtnasta sem þið hafið upplifað í starfi?“ Unglingarnir spurðu margs og fengu svör.

Alla þriðjudaga heimsækja þær grunnskólanemendur til að auka sýnileika og ýta undir vellíðan og öryggi allra í samfélaginu okkar. Þessar heimsóknir munu standa fram á vor. Spurningarnar sem þær fengu voru margar

Samfélagslöggæsla er forvarnarverkefni lögreglunnar sem Hafnarfjarðarbær styður með öllum tiltækum ráðum.

Dagný Karlsdóttir og Ýr Steinþórsdóttir samfélagslöggur í Öldutúnsskóla nú í morgun.

Samstarf allra mikilvægt

Samfélagslöggurnar okkar sinna þessari samfélagslöggæslu samhliða hefðbundnum lögreglustörfum. Þrjár eru í 50% starfi sem samfélagslöggur og sú fjórða 25%. Þær heimsækja félagsmiðstöðvar, öldrunarheimili og leikskóla til að tengjast samfélaginu. Frá því í vor hafa þær verið í sérstöku átaki að fræða ungmennin og er framtakið hugsað sem leið til að bæta þjónustuna og efla tengslin við almenning og þá ekki síst unga fólkið.

„Við vinnum með samfélaginu hér í Hafnarfirði og tökum fyrir mál og áskoranir líðandi stundar. Við viljum færa okkur nær samfélaginu, efla sýnileika og samstarf milli allra hlutaðeigandi,“ segir Dagný Karlsdóttir, samfélagslögga.

„Við erum mikilvægur hlekkur í innleiðingu farsældarlaganna og tökum hlutverk okkar þar alvarlega og hvetjum alla aðra til að gera það líka. Öll þau sem starfa með börnum og ungmennum og kannski ekki síst sjálfa foreldrana,“ segir hún. Góð tenging við samfélagið auki líkurnar á því að fólk hafi samband við lögregluna, hugsi til hennar og um hana áður en í óefni er komið.

„Unga fólkið í Hafnarfirði er mjög  áhugasamt um okkar störf og verkefni,“ segir Dagný. Fræðsla lögreglunnar til ungmennanna snýr meðal annars að sakhæfisaldri, vopnaburði, hótunum á vefnum, netspjalli og viðkvæmum persónulegum myndum í umferð. Fjórar lögreglustöðvar eru á höfuðborgarsvæðinu og samfélagslöggur á þeim öllum. Þær fræða og mynda tengsl við íbúa og hafa gert allt frá árinu 2019.

  • Sjáðu fréttina frá því í vor hér

 

Ábendingagátt