Fleiri stjórnendur bæjarins setjast á skólabekk

Fréttir

Leiðtogaskólinn hefur nú verið settur í annað sinn. Stefnt er að því að allir stjórnendur Hafnarfjarðarbæjar sitji skólann og geri þannig Hafnarfjarðarbæ að enn eftirsóknarverðari vinnustað.

 

Hvattir áfram fyrir árangursmiðaða menningu

Hátt í þrjátíu stjórnendur Hafnarfjarðarbæjar settust á skólabekk í dag 3. febrúar og hófu nám í Leiðtogaskólanum. Þeir skipa annan hópinn sem sest á bekkinn en skólinn var í fyrsta sinn settur fyrir jól.

Markmið skólans eru skýr. Skapa á menningu árangursmiðaðar stjórnunar á vinnustaðnum í samræmi við einkunnarorð Hafnarfjarðarbæjar: hlýleg, áreiðanleg og snjöll þjónusta. Hópinn skipa sviðsstjórar, forstöðumenn, deildarstjórar, skóla- og leikstjórar og fleiri leiðtogar í starfi hjá bænum.

Styrktir til framþróunar

Tilgangurinn er að efla leiðtogahæfni stjórnenda hjá Hafnarfjarðarbæ og hvetja starfsmenn til frekari framþróunar. Auka vitund þeirra um eigin áhrif á þróun vinnustaðarmenningar og árangur sinnar skipulagsheildar.

Stjórnendurnir sitja átta ólíkar 3,5 klukkustunda langar vinnustofur. Stefnt er að því að sem allra flestir stjórnendur fari í gengum námið á næstu þremur árum.

Auka innsýn stjórnenda

Stjórnendurnir fá meðal annars innsýn í valdeflandi leiðtogaþjálfun, góða stjórnsýslu, hvernig leiðtoginn er hreyfiafl, fjármál, jafnræði og stjórnun.

Ábendingagátt