Frábær uppskera af skapandi sumarstörfum í Hafnarfirði

Fréttir

Íslensku tónlistarverðlaunin og Evrópsku listaverðlaun Sólveigar Anspach eru meðal uppskeru skapandi sumarstarfa í Hafnarfirði. Sjö öflug verkefni eru í vinnslu í ár.

Skapandi sumarstörf náð heimsathygli

Íslensku tónlistarverðlaunin og Evrópsku listaverðlaun Sólveigar Anspach eru meðal uppskeru skapandi sumarstarfa í Hafnarfirði. Tíu skapandi ungir einstaklingar standa að sjö spennandi verkefnum á vegum Skapandi sumarstarfa í ár.

Verkefnin eru fjölbreytt. Unnið er að tölvuleik um Hafnarfjörð og stuttmynd fyrir börn, málaðar myndir, sungið, gerð dansverks og sýningar um Sædýrasafnið í Hafnarfirði. Það starfaði allt til 1987 og geymdi kengúrur, háhyrninga ísbirni, ljón og apa.

Frábær árangur af starfinu

„Skapandi sumarstörf Hafnarfjarðar hafa verið starfrækt síðastliðin fjögur ár með frábærum árangri,“ segir Klara Elías, verkefnastýra Skapandi sumarstarfa og tónlistarkona.

„Ungmenni hafa blómstrað í þessum störfum síðustu ár og vakið athygli á heimsvísu. Verkefnin hafa hlotið fjölda viðurkenninga, svo sem Íslensku tónlistarverðlaunin fyrir tónlistarmyndband ársins 2022 og hin Evrópsku listaverðlaun Sólveigar Anspach fyrir besta leikstjóra ársins,“ segir hún.

„Þau hafa fengið tilnefningar til fjölda verðlauna á erlendum og íslenskum kvikmyndahátíðum, til dæmis til Eddunnar, handrit hafa verið sett upp og sýnd í leikhúsum og haldið áfram að slá í gegn löngu eftir að sumarstörfum lýkur.“

Listafólkið eflir starfsferilinn sinn

Listafólkið er á 18-25 ára. Það hefur undirbúið sig fyrir starfsferil á þeim vettvangi sem þau vinna að nú í sumar.

Klara er stolt af afrakstrinum og því mikilvæga hlutverki sem starfið hefur sinnt. Fötluð ungmenni úr Klettinum og Vinaskjóli hafa til að mynda verið mikilvægur hluti af starfshópunum, sem og ungt fólk utan skóla og vinnumarkaðar. Það hefur komist aftur í virkni í þessari skapandi vinnu.

„Það hefur í kjölfarið öðlast sjálfstraustið til að fara aftur á vinnumarkað eða í nám. Skapandi sumarstörf hafi því verið mikilvægur hlekkur í að efla menningarlíf Hafnarfjarðar og stuðla að heilbrigðu inngildandi samfélagi fyrir öll,“ segir hún.

 

STUTT KYNNING Á VERKEFNUM

/ LISTAFÓLKI 2024

1.

Brynja Valdís Waage

/ Myndlist

Vinnur að sex verkum í sumar sem draga öll innblástur úr náttúru Hafnarfjarðar.

Brynja heldur sýningu í Hellisgerði á verkum sínum í byrjun ágúst.

 

2.

Sölvi Snær Einarsson

/ Tölvuleikur um Hafnarfjörð

Hannar tölvuleik um Hafnarfjörð þar sem farið er í gegnum helstu kennileiti bæjarins, fram koma fróðlegar staðreyndir um Hafnarfjörð og persónur í leiknum heita eftir frægum Hafnfirðingum. Leikurinn verður frumsýndur og aðgengilegur öllum í lok sumars.

3.

Reynir Snær Skarphéðinsson og Jun Gunnar Lee Egilsson

/ Stuttmynd um huldufólk í Hafnarfirði

/ Barnaefni

Skrifa handrit, framleið og leikstýra barnaefni í formi stuttmyndar um ævintýri Árúnar þegar hún hittir tröll, álfa og aðra huliðsvætti í sumarheimsókn sinni hjá ömmu sinni og afa í Hafnarfirði. Myndin verður frumsýnd í ágúst.

 

4.

Íris Ásmundsdóttir, Benedikt Gylfason og Hanna Hulda Hafþórsdóttir

/ Sviðslistahópurinn Þríradda

Sviðslistahópurinn Þríradda setur upp sýningu í Hafnarborg þann 12. ágúst þar sem ólík listform, dans, tónlist og myndbönd eru samofin.

IG: @3_radda

 

5.

Svanhildur Júlía Alexandersdóttir og Hildur Arna Hrafnsdóttir

/ Flautudúettinn GOLA

Þverflautuleikkonur sem ferðast um Hafnarfjörð í sumar og spila og skemmta Hafnfirðingum og kynna flautu listina fyrir bæjarbúum. Þær spiluðu meðal annars á Austurgötuhátíðinni á 17.júní og fara á milli leikskóla, hjúkrunarheimila, kaffihúsa og annara fjölfarinna staða í bænum í allt sumar. IG: @golaflautur

 

6.

Logi Guðmunsson

/ Dansmyndbandsverk og Ballett

Logi vinnur að dansmyndbandsverki sem á sér stað í Hafnarfirði og samhliða því að kynningu á sinni einstöku sögu sem fyrsti og yngsti Ballettdansarinn frá Íslandi sem stundar nám í hinum heimsfræga San Fransico Ballet School. IG: @ballett.meiri.ballett

 

7.

Rán Sigurjónsdóttir

/ Sýning um Sædýrasafnið í Hafnarfirði

Rán stundar nám í grafískri hönnun við Listaháskóla Íslands og notar þá tækni og listræna hæfileika sína til að fjalla um Sædýrasafnið í Hafnarfirði. Hún talar við aðstandendur og gesti safnsins og gerir upp söguna bakvið þetta umdeilda og sögulega safn Hafnarfjarðar.

 

Ábendingagátt