Gott að eldast: Ósk um rýni á nýjum lífsviðburði á Ísland.is

Fréttir

Gott að eldast er yfirskrift aðgerðaáætlunar stjórnvalda í málefnum eldra fólks. Liður í henni er að þróa þjónustu við borgarana í takt við breyttar þarfir og nýja tíma. Ein aðgerðanna fjallar um upplýsingagátt fyrir allt landið með upplýsingum um alla þjónustu við eldra fólk.

Aðgerðaáætlun stjórvalda í málefnum eldra fólks

Gott að eldast er yfirskrift aðgerðaáætlunar stjórnvalda í málefnum eldra fólks. Liður í henni er að þróa þjónustu við borgarana í takt við breyttar þarfir og nýja tíma. Ein aðgerðanna fjallar um upplýsingagátt fyrir allt landið með upplýsingum um alla þjónustu við eldra fólk. Samstarf er þegar hafið við Stafrænt Ísland vegna þessarar aðgerðar og fyrstu afurðina er hægt að sjá á Ísland.is. Um er að ræða svokallaðan lífsviðburð sem ber heitið Að eldast og inniheldur upplýsingar um þjónustu við eldra fólk og réttindi þess.

Sjá Að eldast á vefsíðu Ísland.is

Framtíðarskipulag upplýsinga um þjónustu við eldra fólk

Þar sem verið er að leggja grunn að framtíðarskipulagi upplýsinga um þjónustu við eldra fólk hér á landi er mikilvægt að fá rýni þeirra sem þekkja til þjónustunnar, hvort sem varðar félags- eða heilbrigðisþjónustu. Verkefnastjórn Gott að eldast hefur því óskað eftir liðsinni starfsfólks félags- og heilbrigðisþjónustu um land allt og beðið um að það sendi ábendingar vegna síðunnar á netfangið: gottadeldast@frn.is

Til viðbótar hafa sveitarfélögin Árborg, Akranes og Hafnarfjörður þegar hafið formlegt samstarf við Gott að eldast vegna ofangreindrar aðgerðar. Markmið þeirrar vinnu er að rýna framsetningu upplýsinga um heimaþjónustu og virkni eldra fólks og koma með tillögur að samræmdu orðalagi og uppsetningu á þjónustuframboði á vefsíðum sveitarfélaga.

Sjá aðgerðaáætlunina Gott að eldast

Ábendingagátt