Gúttó – vagga menningarlífs

Fréttir

Í Góðtemplarahúsinu hefur Byggðasafn Hafnarfjarðar sett upp sýninguna „Gúttó – Hús templara, vagga félags- og menningarlífs í 130 ár“.

Í Góðtemplarahúsinu, Suðurgötu 7, hefur Byggðasafn Hafnarfjarðar sett upp sýninguna „Gúttó – Hús templara, vagga félags- og menningarlífs í 130 ár“ þar sem ljósi er varpað á sögu Góðtemplarareglunnar í Hafnarfirði og því mikla félags- og menningarstarfi sem fram hefur farið í húsinu í gegnum tíðina.

Góðtemplarastúkan Daníelsher er elsta starfandi félag í Hafnarfirði og Góðtemplarahúsið elsta samkomuhús á landinu og er það nátengt öllu menningar- og félagsstarfi í bænum í gegnum tíðina. Hugmynd að byggingu Gúttó kom fram 4. október 1885 á fundi stúkunnar Morgunstjörnunnar og var húsið vígt 17. desember 1886 við mikil hátíðarhöld.  Góðtemplarahúsið er fyrsta húsið sem Góðtemplarar reistu hér á landi fyrir starfsemi sína. Húsið þótti stórt, rúmaði um 300 manns og segir sagan að nær allir Hafnfirðingar hafi komist þar fyrir í einu en þá bjuggu rúmlega 400 manns í Hafnarfirði. Húsið var fyrsta eiginlega samkomuhús Hafnfirðinga og um langan tíma miðstöð allrar menningar í bænum. Þar fór fram mikið félagsstarf, fundir og skemmtanir, þar voru flutt leikrit og haldnar söngskemmtanir og dansleikir. Í húsinu var fyrsti fundur bæjarstjórnar haldinn og um 20 ára skeið var bæjarstjórn þar með fundi sína. Veturinn 1907-8 var kennaraskóli Flensborgarskólans í húsinu. Þar voru einnig stofnuð nokkur félög og af þeim má nefna Verkamannafélagið Hlíf og Sjómannafélag Hafnarfjarðar. 

Sýningin – Gúttó – var opnuð á 108 ára afmælisdegi Hafnarfjarðarbæjar þann 1. júní síðastliðinn og verður hún opin allar helgar í sumar frá kl. 11 – 17.  Aðgangur er ókeypis.

Ábendingagátt