Handbók fyrir ofurhetjur – höfundar heimsækja Hafnarfjörð

Fréttir

Höfundar heimsóttu Bæjarbíó í morgunsárið, munu árita bækur sínar á Bókasafni Hafnarfjarðar í dag kl. 16:30 og verða í hópi fyrirlesara á landsfundi Upplýsingar í vikulok.

Bókasöfn Hafnarfjarðar og Garðabæjar eru gestgjafar landsfundar Upplýsingar í ár

Í tilefni af því að bókasöfn Hafnarfjarðar og Garðabæjar eru gestgjafar landsfundar Upplýsingar í ár bjóða þau, í samstarfi við bókaútgáfuna Drápu, til upplesturs og samræðna við höfunda hinnar geysivinsælu bókaraðar: Handbók fyrir ofurhetjur. Höfundar heimsóttu Bæjarbíó í morgunsárið, munu árita bækur sínar á Bókasafni Hafnarfjarðar í dag kl. 16:30 og verða í hópi fyrirlesara á landsfundi Upplýsingar í vikulok.

Bókaröðin Handbók fyrir ofurhetjur hefur slegið í gegn á Íslandi og víðar

Handbók fyrir ofurhetjur er einn af þekktustu ungmennabókaflokkum samtímans skrifaðir og teiknaðir af hjónunum, hinum sænska Elias Våhlund og hinni pólsku Agnes Våhlund. Nýjasta bók þeirra hefur selst í yfir 1,5 milljónum eintaka í Svíþjóð einni og þýdd á 23 tungumál. Á hverju ári eru þær einnig efstar á lista sænskra bókasafna yfir mest lánaðar bækur. Elias og Agnes hittu alla nemendur í 6. bekkjum grunnskóla Hafnarfjarðar í Bæjarbíói í morgun og munu halda áfram að hitta fleiri áhugasama lesendur og aðdáendur á Bókasafni Hafnarfjarðar í dag og árita bækur sínar. Allir kátir krakkar eru hvattir til að mæta á svæðið með bókina sína og fá áritun.

Landsfundur Upplýsingar 2023 haldinn í Hafnarfirði

Landsfundur Upplýsingar, fagfélags á sviði bókasafns-og upplýsingafræða, verður haldinn á Ásvöllum í Hafnarfirði dagana 21. – 22. september. Yfirskrift fundarins í ár er: Get ég aðstoðað? Þjónusta og uppbygging bókasafna í nútímasamfélagi og verða lykilfyrirlesarar þau Jan Holmquist og Kenneth Korstad Langås. Jan mun fjalla um aðlögun að breytingum og umbreyting bókasafnsþjónustu fyrir nútímasamfélag. Kenneth mun í erindi sínu ræða mikilvægi bókasafna og hvernig þau eru ákveðið bjargráð nærsamfélagsins. Hjónin Agnes og Elias Våhlund munu í erindi sínu fjalla um nýjustu bók sína sem þau telja að geti breytt lífi fólks, deila hugsunum sínum og ferli á bak við bækurnar og hugmyndum sínum til að ná til ungra lesenda. Nokkur erindi á dagskrá landsfundar eru héðan úr Hafnarfirði. Hugrún Margrét deildarstjóri barnadeildar á Bókasafni Hafnarfjarðar mun fjalla um ríka áherslu safnsins á fjölmenningu og þjónustu án aðgreiningar, Guðrún Ragna Yngvadóttir frá Ask arkitektar mun kynna hugmyndir að nýju bókasafni í Hafnarfirði og Sandra Björg Ernudóttir frá Skarðshlíðarskóla mun fjalla um bókabrall skólans.

Nánar um landsfund Upplýsingar

Ábendingagátt