Hátt í 100 hljóðfæraleikarar í Hafnarfirði

Fréttir

Nú stendur Alþjóðlega tónlistarakademían HIMA sem hæst. Hátt í eitt hundrað ungir strengjahljóðfæraleikarar taka þátt og er akademían til 23. júní. Hafnarfjarðarbær er bakhjarl þessa alþjóðlega tónlistarnámskeiðs.

Strengjahljóðfæraleikarar í sumartónlistarakademíu!

Hljómfagrir tónar fiðlu-, víólu-, og sellós berast nú úr Lækjarskóla, Hásölum og Tónlistarskóla Hafnarfjarðar. Alþjóðlega tónlistarakademían HIMA stendur nú sem hæst. Námskeiðið hófst 14. júní og lýkur þann 23. júní.

Fyrstu kammertónleikarnir fóru fram í gær og fyrstu sólótónleikarnir eru í kvöld kl. 20 í Hásölum. Það er líf og fjör á þessari Alþjóðlegu tónlistarakademíu HIMA. Fleiri tónleikar verða í Hásölum á morgun og á laugardag. Hægt er að nálgast upplýsingar um þá á himafestival.is og á Facebook-síðu HIMA. Lokatónleikarnir verða svo í Norðurljósum í Hörpu á sunnudaginn.

  • Fyrstu tónleikarnir á sunnudag (Yngri deild) verða kl. 11
  • Miðdeildartónleikarnir verða kl. 16
  • Eldri deild slær svo botninn í HIMA þetta árið kl. 20.

Tækifæri fyrir tónlistarfólk

Grunnhugmyndin að þessari tónlistarakademíu HIMA er að skapa umgjörð fyrir íslenska strengjahljóðfæranemendur svo þeir þurfi ekki að sækja vatnið yfir lækinn. Markmiðið er að gefa ungum strengjaleikurum tækifæri til að sækja mjög metnaðarfullt námskeið í tónlist hér á landi. Hafnarfjarðarbær stendur stolt á bakvið þetta unga tónlistarfólk.

Fyrsta HIMA-námskeiðið var haldið í tónlistarhúsinu Hörpu 2013. Það er nú haldið í annað sinn í Hafnarfirði en í fyrsta sinn í samstarfi við bæinn.

Njótum með þátttakendunum. Myndirnar hér eru frá HIMA.

Ábendingagátt