Hátt í 700 börn sáu Maxímús Músíkús

Fréttir

Hafnfirsk börn sátu í tveimur hollum og sem fastast og nutu sýningar Sinfóníuhljómsveit Tónlistarskóla Hafnarfjarðar á Maxímús Músíkús nú í morgun.

Börnin hittu Maxímús Músíkús

Hátt í sjö hundruð hafnfirsk börn sátu sem fastast og nutu sýningar Sinfóníuhljómsveit Tónlistarskóla Hafnarfjarðar á Maxímús Músíkús. Sýningarnar voru tvær nú í morgun, um 320 á þeirri fyrri og 360 á þeirri síðari. Já, Maxímús ferðaðist til Hafnarfjarðar en heimili hans er í Hörpu.

Maxímús Músíkús mætti svo galvösk í heimsókn og höfðu börnin gaman að.  Valgerður Guðnadóttir sögumaður flutti söguna af tónelsku músinni og hljómar sinfóníuhljómsveitarinnar ómaði undir.

Músikús orðin 17 ára

Eins og segir á vef Sinfóníuhljómsveitar Íslands er Maxímús Músíkús fyrir löngu orðinn heimilisvinur barna á Íslandi. „Ævintýrið um músina knáu hljómaði fyrst á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í maí 2008,“ segir þar. Hún er því orðin sautján ára.

Fimm myndskreyttar bækur ásamt meðfylgjandi geisladiskum með tónlist í flutningi Sinfóníuhljómsveitar Íslands hafa komið út. Fyrsta bókin hlaut Fjöruverðlaunin sem barnabók ársins 2008.

Já, það voru glöð börn sem nutu vorsólarinnar og tóna sinfóníuhljómsveitarinnar í morgun.

Ábendingagátt