Hlíðarendabörn í heimsókn hjá bæjarstjóra

Barnvænt sveitarfélag Fréttir

Hvað gerir bæjarstjóri? spurðu elstu börnin í Hlíðarendaleikskóla þegar þau heimsóttu Valdimar Víðisson bæjarstjóra nú í morgun. Börnin komu með strætó, stoppuðu á Thorsplani og sungið nokkur lög. Þau héldu svo aftur út í daginn eftir vel heppnaða heimsókn til bæjarstjóra.

Leikskólabörn frá Hlíðarenda í heimsókn

Hvað gerir bæjarstjóri, spurðu elstu börnin í Hlíðarendaleikskóla þegar þau heimsóttu Valdimar Víðisson nú í morgun. Ég tek á móti gestum og þetta er skemmtilegasta heimsóknin núna, að fá að hitta ykkur öll, svaraði hann. 

Elsti bekkur Hlíðarenda heimsækir bæjarstjórann árlega. Rétt eins og þessi fimm til sex ára börn, sem eru á leið í grunnskóla í haust, hittu bæjarstjórann á skrifstofunni í fyrsta sinn, var þetta í fyrsta sinn sem Valdimar, sem tók við stjórnartaumunum í ársbyrjun, hitti leikskólabörnin!

Hressilegar samræður

Valdimar lýsti því hvernig bæjarstjóri tæki á allskonar málum. Samræðurnar voru líflegar. Börnin vildu vita margt: Hver er uppáhalds bókin þín? Þekkir þú forsetann? Hvað er uppáhalds blómið þitt?

Valdimar upplýsti að spennusögur væru hans uppáhald. Hvað eru spennusögur? var þá spurt og útskýrt um hæl. En finnst þér fíflar flottir? Já, ég elska gular breiður, sagði hann. 

Vilja úrbætur á skólalóðinni

Börnin vildu líka sjá úrbætur á skólalóðinni sinni. Þau telja að það vanti leikstrætó. Valdimar sagði þeim að það þyrfti reglulega að laga lóðir bæjarins og skoða sérstaklega grunn- og leikskólalóðir. En hvernig er leikskólastrætó? spurði hann. Börnin útskýrðu það og að þau vildu líka flugvélaþotu.

Börnin buðu svo bæjarstjóra í heimsókn. Þau hafa síðasta hálfa mánuðinn föndrað og byggt upp Hafnarfjarðarbæ, einstakt listaverk, sem börnin setja upp frá grunni ár hvert – nýr hópur. Þau töldu upp hvað hvert þeirra hefði gert: Ég gerði sundlaug. Ég gerði flugvöll, ég gerði…. Hljómaði úr sófasettinu á bæjarskrifstofunni. Þar var þéttsettið.

Barnvænt samfélag

Valdimar sagði börnunum frá því að stefnt væri að því að Hafnarfjörður yrði viðurkenndur á haustmánuðum sem barnvænt samfélag. Það þýðir að við þurfum svo sannarlega að hlusta á það sem þið segið, sagði hann. Þau mættu hafa skoðanir á hlutum og láta vita af því sem þau vildu sjá betra og bætt.

Já, ég kem á mánudaginn og sé verkið ykkar, sagði hann að lokum. Svo var slegið í hópmynd og börnin, sem höfðu komið með strætó, stoppað á Thorsplani og sungið nokkur lög, héldu aftur út í daginn eftir vel heppnaða heimsókn til bæjarstjóra.

Já, framtíðin er björt í barnvænu samfélagi.

Ábendingagátt