„Hlýja fer aldrei til spillis“ – fjölskyldur saman á 17. júní

Fréttir

Sautjándi júní var frábær hér í Hafnarfirði. Fjölskyldur gátu skemmt sér fram á kvöld við fjölbreytta dagskrá. Þær létu ekki úrkomuna á sig fá og gripu margir regnhlífina með.

17. júní í Hafnarfirði

Hafnfirðingar nutu 17. júní fram á kvöld. Margar fjölskyldur skemmtu sér saman og nutu dagsins. Segja má að þótt dagskráin hafi verið þétt, löng og margt í boði hafi regnhlífar einkennt daginn þennan þjóðhátíðardag.

Skrúðgangan á sínum stað, skemmtun á Thorsplani á sínum stað og stuðið og stemningin einnig. Rec Media fangaði daginn í myndum og myndskeiðum.

Bæjarstjóri fagnaði samfélaginu

Valdimar Víðisson bæjarstjóri hélt hátíðarræðu og sagði fátt betra en að standa með öllum sem hér væru í hjarta Hafnarfjarðar – og sjá bæinn iða af lífi.

„Við búum í bæ þar sem við þekkjumst, bjóðum hvert öðru góðan dag og spjöllum í röðinni í bakaríinu. Við eigum samfélag þar sem fólk leggur sig fram fyrir hvort annað, þar sem fjölbreytni er styrkur og hlýjan raunveruleg. Og það skín í gegn í allri hátíðinni í dag,“ sagði hann og að mögnuð dagskráin endurspeglaði þetta

„Þjóðhátíðardagurinn er líka dagur þar sem við horfum aðeins inn á við. Við minnumst þess sem áður var, þeirra sem lögðu grunninn, en líka þess sem við viljum varðveita og byggja upp. Það er auðvelt að gleyma því í hraða hversdagsins – en samfélagið okkar er ekki bara til; það er búið til, dag frá degi, af fólki eins og ykkur.“

Valdimar Víðisson hélt hátíðarræðu.

Njóta, hrósa og lengja daginn

Hann hvatti Hafnfirðinga til að njóta dagsins. Hrósa hvert öðru. „Þetta er dagurinn sem við gefum hvert öðru smá auka hlýju. Hún fer aldrei til spillis,“ sagði hann.

„Ég verð að viðurkenna – ég elska þessa daga. Að sjá bæinn okkar vakna til lífsins, sjá fjölskyldur saman, heyra hláturinn bergmála milli húsanna og finna þessa sérstæðu stemningu sem aðeins Hafnarfjörður getur skapað. Þetta er svona dagur sem maður vill lengja, teygja úr eins og á góðu sumarkvöldi.“

Ábendingagátt