Hvaleyrarskóli með gull í skák yngri og eldri deildar

Barnvænt sveitarfélag Fréttir

Skáskeitir Hvaleyrarskóla unnu bæði í yngri og eldri aldurshópi skákmóta grunnskóla Hafnarfjarðar rétt eins og í fyrra. Skákáhuginn eflist og vona Kiwanismenn, sem stóðu að mótinu, að enn fleiri taki þátt næst.

Skákin á uppleið í grunnskólunum

Skáksveit Hvaleyrarskóla vann til gullverðlauna á grunnskólaskákmóti nemenda unglingadeildar sem haldið var í Setbergsskóla 14. maí síðastliðinn. Skáksveit Nú – skóla framsýnnar menntunar til silfurverðlauna og skáksveit Víðistaðaskóla vann til bronsverðlauna á grunnskólaskákmóti 8.-10. bekkja í Hafnarfirði, 2025,

Hvaleyrarskóli fær því sigurbikar Hraunborgar til varðveislu í skóla sínum fram að næsta grunnskólaskákmóti þessa aldurshóps,  sem Hraunborg og félagsmiðstöðvar grunnskólanna munu væntanlega vinna saman að á næsta skólaári.

Sömu sæti og í fyrra

5.-7. bekkur kepptu viku fyrr. A – skáksveit Hvaleyrarskóla vann til gullverðlauna, skáksveit Víðistaðaskóla til silfurverðlauna og B – skáksveit Hvaleyrarskóla vann til bronsverðlauna í miðdeildarskákmóti grunnskóla Hafnarfjaðrar. Úrslitin þar voru einnig þau sömu og í fyrra í skólaskákmóti þessa aldurshóps í Hafnarfirði. Sigurbikar Kiwanisklúbbsins Hraunborgar verður því áfram í Hvaleyrarskóla að minnsta kosti fram að næsta grunnskólaskákmóti 5.-7. bekkja nemenda hér í bæ.

„Að skáksveitir Hvaleyrarskóla skulu bera sigur úr býtum í báðum grunnskólaskákmótum ársins vitnar um að þar fari fram góð, metnaðarfull og markviss skákkennsla og skákiðkun, sem er hróssverð og mikil fyrirmynd að. Víðistaðaskóli og Nú – skóli, framsýn menntun bjóða líka upp á góða skákkennslu svo sem árangur þeirra vottar. Þess ber að vænta að aðrir grunnskólar í Hafnarfirði fylgi brátt fordæmi þeirra og fái reynt það hve skákkennsla og tafliðkun eftir settum reglum og viðmiðunum geta haft mikið að segja í góðu og árangursríku skólastarfi,“ segir í vitnisburði Kiwanisklúbbsins Hraunborgar sem stendur að mótinu.

„Megin markmið grunnskólaskákmótanna, sem Kiwanisklúbburinn Hraunborg beitir sér fyrir, er að sjálfsögðu það að efla skáklist og skólastarf í Hafnarfirði og jafnframt lífsgleði, þroska og hæfni skólanemenda til að láta vel að sér kveðja til gagns og gleði á komanda tíð. Það stefnumið samræmist vel kjörorðum Kiwanishreyfingarinnar: Börnin fyrst og fremst,“ segir þar.

Kiwanis þakkar fyrir samstarfið

Helgi Ólafsson, stórmeistari, stjórnaði og dæmdi í síðara mótinu en Daði Ómarsson, lærisveinn hans og skákkennari, stýrði því fyrra. Bæði mótin fóru vel fram og góður bragur var á þeim enda fylgt þar megin reglum og viðmiðunum sem gilda í liðakeppnum skákfélaga og í opinberum skákmótum.

Kíwanisklúbburinn Hraunborg þakkar svo fyrir samstarfið góða við félagsmiðstöðvar grunnskólanna í Hafnarfirði. Einnig skólastjórnendum og liðsstjórum skáksveitanna fyrir að velja þær og undirbúa til þátttöku í skákmótunum. „En ekki síst þökkum við skákmönnunum sjálfum fyrir þátttökuna og drengilega skákkeppni. Við þökkum að auki Kristni Guðlaugssyni, skólastjóra Hvaleyrarskóla, fyrir að hefja skákmótið þar með nokkrum vel völdum hvatningarorðum og leika svo fyrsta leikinn í því og eins Valdimari Víðissyni, bæjarstjóra Hafnfirðinga, fyrir að gegna sama hlutverki í skákmótinu í Setbergsskóla. Og stjórnendum og frístundaleiðtogum þessara skóla þökkum við sérstaklega fyrir að hýsa skákmótin og hlúa vel að þeim.“

Ábendingagátt