Í bæjarfréttum er þetta helst

Fréttir

Það er margt um að vera á stóru heimili. Í þessu yfirliti rennir bæjarstjóri Hafnarfjarðarbæjar yfir helstu verkefni, viðburði og áskoranir síðustu vikna. Vikur sem hafa iðað af miklu lífi, hátíðarhöldum og verkefnum sem tengjast sumri og uppskeru á öllum sviðum.

Nú er orðið nokkuð um liðið frá síðustu birtingu. Ástæðan er einföld…það er margt um að vera á stóru heimili og í forgangi að sinna heimilisverkunum. Nú hefur aðeins hægst um og svigrúm skapast til skrifa. Síðustu mánuðir hafa sem fyrr einkennst af miklu lífi, hátíðarhöldum og verkefnum sem tengjast sumri og uppskeru á öllum sviðum. Þrif og hreinsun á fallega bænum okkar hófst með sópun á götum og göngustígum í apríl og í framhaldinu tóku íbúar, nemendur grunn- og leikskóla og starfsmenn bæjarins og fyrirtækja í Hafnarfirði sig til og tóku virkan þátt í hreinsun á sínu nærumhverfi. Hreinsunardagarnir í maí þóttu takast mjög vel til þetta árið og eigið þið öll hrós skilið fyrir ykkar framlag. Vinnuskóli Hafnarfjarðar hóf svo störf um miðjan júní og vinna í kringum 650 unglingar við sláttur, hreinsun og fegrun fram í ágúst. Við höfum því miður ekki alveg náð að tryggja sláttur og hreinsun á almenningi og opnum svæðum sem eru erfiðari yfirferðar og krefjast tækjavinnu og stærri ákvarðanna, það verður að viðurkennast. Verið er að vinna að framtíðarlausnum á þessum þáttum og stefnum við á að hefjast handa nú í sumar við þær lausnir en keyra af fullum krafti á þær strax snemma næsta vor. Þessa dagana stendur yfir samkeppni – Snyrtileikinn 2016 – þar sem allir áhugasamir eru hvattir til að tilnefna þær eignir, garða, götur og fyrirtæki sem til fyrirmyndar þykja í snyrtileika og fegurð. Viðurkenningar fyrir þá sem hlutskarpastir þykja verða veittar við hátíðlega athöfn í ágúst. Ég hvet ykkur öll til að velja þá eign og götu og þann sem þér þykir bestur og senda tillögu á hafnarfjordur@hafnarfjordur.is

Mannauðurinn og einstaklingsframtakið

Mikilvægi þess þegar hver og einn einstaklingur leggur sitt af mörkum til samfélagsins verður aldrei metið til fjár. Mikilvægið er gríðarlegt og starfið ómissandi hverju samfélagi. Á hverjum degi hitti ég einstaklinga, fyrirtæki og samtök sem eru í sjálfboðavinnu sinni að gera góða hluti og höfum við eftir megni reynt að styðja við hið góða starf. Þannig er stuðningurinn ekki alltaf fjárhagslegur heldur líka í formi vinnu, aðstöðu og kynninga. Við eigum mjög erfitt með að styðja fjárhagslega við öll verkefni og þeir sem til okkar leita, sem betur fer, farnir að meta til muna aðrar leiðir sem við getum farið í stuðningi. Hvatningarverðlaun voru afhent í Bæjarbíói í apríl til einstaklinga sem þótt hafa skarað framúr í vinnu sinni í þágu barna og ungmenna í Hafnarfirði. Það voru Arnfríður og Jóhann Óskar sem hlutu verðlaunin í þetta skiptið fyrir aðkomu sína að stofnun Brettafélagsins – frábært starf sem þar er unnið. 

Nýverið hélt 3SH einn glæsilegasta Þríþrautardag til þessa þar sem keppnissvæðið var stækkað og opnað á tækifæri fyrir fleiri til að taka þátt. Í ár teygði keppnin anga sína í miðbæ Hafnarfjarðar og endaði þar í mikilli gleði. Keppnin tókst vel og eru vangaveltur uppi þess efnis að stækka hana enn frekar að ári. 

Brúkum bekki er gott dæmi um árangursríkt samstarf og samfélagsverkefni sem keyrt er áfram af sjálfboðaliðum og hugsjónafólki. Markmið með verkefni er að stuðla að aukinni hreyfingu eldri borgara og gera þeim kleift að fara út að ganga í sínu nærumhverfi. Verkefnið felur í sér að fá sveitarfélög, fyrirtæki, félagasamtök, stofnanir og einstaklinga til að styrkja verkefnið með því að taka að sér að greiða fyrir gerð bekkjar eða bekkja. Fjölmargir öflugir aðilar hafa komið að verkefninu í Hafnarfirði og hefur samstarfið gefið af sér 43 nýja bekki og kort sem sýnir allar gönguleiðir sem eru með minna en 250 metra á milli bekkja. Það er mikill og vandaður mannauður sem býr í hafnfirsku samfélagi og er það líka raunin með mannauð Hafnarfjarðarbæjar. 

Hjá bænum starfa hátt í 2.000 einstaklingar sem allir hafa mikilvægu hlutverki að gegna. Fjöldi einstaklinga hefur tileinkað bænum hug sinn og vinnuframlag til fjölda ára og nú á síðustu vikum kvöddum við þrjá einstaklinga sem komnir eru á aldur, reiðubúnir að setjast í helgan stein og njóta lífsins lystisemda. Magnús Baldursson, fræðslustjóri til fjölda ára lét af störfum í byrjun maí eftir tæp 28 ár í starfi og er framlag hans til fræðslumála í Hafnarfirði ómetanlegt. Már Sveinbjörnsson lét af störfum sem hafnarstjóri í maí eftir farsælt tveggja áratuga skeið. Már hefur m.a. tekið þátt í miklu uppbyggingarstarfi við höfnina og á miklar þakkir skyldar fyrir það. Ingibjörg Einarsdóttir, skrifstofustjóri fræðslu- og frístundaþjónustu, lét af störfum í byrjun júlí eftir rúm 20 ár í starfi. Ingibjörg hefur komið að fjölda fjölbreyttra verkefna á sviði fræðslumála gegnum árin og nær virkni hennar langt út fyrir Hafnarfjörð m.a. í gegnum Stóru upplestrarkeppnina. Við þökkum þessum einstaklingum gott samstarf og óeigingjarnt framlag til bæjarins gegnum árin.

Viðburðir og hátíðarhöld

Sumardagurinn fyrsti var haldinn hátíðlegur með fimm daga menningarhátíð – Björtum dögum. Þar markaði heimilislega tónlistarhátíðin HEIMA á síðasta vetrardegi upphafið og svo lögðust allir á eitt, listamenn, hönnuðir, Byggðasafn, bókasafn, Hafnarborg, skátar, kórar, verslunareigendur, veitingahús og margir fleiri við að setja upp dagskrá með fjölbreyttum viðburðum, sýningum og uppákomum frá miðvikudegi til sunnudags. Bjartir dagar er fyrsta bæjarhátíð ársins á landsvísu og tókust þeir frábærlega í Hafnarfirðinum í ár þökk sé öllum þátttakendum. Fjöldinn og áhuginn sem ríkti þessa daga er merki um það sem koma skal hér í Firðinum; uppbyggingin er hröð, sköpunargleðin mikil og áhuginn á okkur farinn að ná vel út fyrir landsteinana. 

Frá Björtum dögum hefur hver hátíðin á fætur annarri tekið við; Gakktu í bæinn, Lifandi laugardagar, Sjómannadagur og 17. júní sem einnig tókust mjög vel og fjöldi þátttakenda bæði í skipulagningu og svo í hátíðarhöldum sjaldan verið meiri. Hér hefur nýstofnuð Markaðsstofa Hafnarfjarðar spilað stórt hlutverk sem hvatningaraðili og tengiliður milli fyrirtækja. Sjómannadagurinn var haldinn með breyttu sniði í ár og tóku fyrirtæki og aðilar á Flensborgarhöfn og á svæði þar í kring sig til um að halda tveggja daga hátíð við höfnina þar sem boðið var upp á siglingu, leiki, þrautir, sýningar, veitingar og fleira. 17. júní var líka um margt einstakur og dreifðu hátíðarhöldin úr sér á fleiri staði en verið hefur til þessa. Þannig var formlega dagskrá að finna á að minnsta kosti þremur stöðum og nóg um að vera. Veðrið lék við okkur og stemningin eftir því. Mikið líf hefur verið við höfnina og á Strandstígnum það sem af er sumri af gangandi og hjólandi íbúum og gestum sem og siglandi sem hafa nýtt þá frábæru aðstöðu sem við höfum hér við höfnina í Hafnarfirði. Þar búum við á gullnámu. 

Að sjálfsögðu fylgdum við svo strákunum okkar alla leið á EM 2016. Blásið var til fótboltaveislu á nýjum heimavelli Hafnfirðinga á Thorsplani þar sem hátt í 2.000 hressir gestir komu saman, horfðu á leikinn og fögnuðu frábærum árangri Íslands á EM. Í byrjun júlí var blásið til hvorutveggja dorgveiðikeppni fyrir 6-12 ára og sumarhátíðar á Víðistaðatúni í frábæru veðri. Þar komu saman hátt í 400 börn og unglingar sem tekið hafa þátt í sumarstarfi í Hafnarfirði það sem af er sumri, krakkar á leikjanámskeiðum og ungmenni í vinnuskóla. Boðið var m.a. upp á vatnsrennibraut, leiki, þrautir, kubb og fótbolta. 

Næsti stóri viðburður sem í undirbúningi er, er þátttaka okkar í Gleðigöngunni. Líkt og hin síðustu ár tekur Hafnarfjarðarbær þátt og eru það starfsmenn jafningjafræðslu í samstarfi við skapandi sumarstörf og listahóp sem skipuleggja göngu, sjá um skreytingar og val á þema göngunnar í ár.

Hafnfirsk fjölmenning

Þrjár nýjar flóttafjölskyldur settust að í Hafnarfirði í apríl. Hér var um að ræða 11 einstaklinga á öllum aldri sem voru á landflótta frá Sýrlandi. Aðlögun þeirra að íslenskum aðstæðum og samfélaginu hér í Hafnarfirði hefur gengið framar vonum og þykir sýnt og sannað að sá undirbúningur sem átt hefur sér stað síðustu mánuði er að skila sér beint til fólksins og faglegrar móttöku þeirra. Það hafa allir lagst á eitt við að hjálpa fjölskyldunum að komast hratt og örugglega inn í hlutina og þær, nú aðeins þremur mánuðum seinna, farnar að taka virkan þátt í samfélaginu þrátt fyrir að enn sé nokkuð í land með fulla þátttöku. Hópurinn hefur stuðningsaðila sem hægt er að leita til auk þess að hafa setið íslenskukennslu síðustu vikurnar. 

Góður undirbúningur fyrir móttöku flóttafólks á Íslandi hefur vakið verðskuldaða athygli og var ákveðið að halda evrópskan samráðsfund um móttöku og aðlögun flóttafólks á Íslandi, réttindi og tækifæri flóttafólks í móttökulandi og stuðning til virkrar þátttöku í samfélaginu. Fundurinn fór fram í Menntasetrinu við Lækinn í byrjun júní. Þar komu saman fulltrúar stjórnvalda og sérfræðinga í málefnum flóttafólks frá Norðurlöndunum og Eystrasaltsríkjunum til að ræða aðlögun flóttafólks. Markmið fundar var að finna áhrifaríka leið sem hefur hvorutveggja hagsmuni, réttindi og skyldur flóttafólksins og samfélagsins að leiðarljósi. Ný fjölskylda, sú fjórða þetta árið, er væntanleg til Hafnarfjarðar nú í ágúst.

Fjárhagurinn

Ársreikningur Hafnarfjarðarbæjar árið 2015 sýndi neikvæða rekstrarniðurstöðu um 512 milljónir króna. Hækkun launa vegna starfsmats og nýrra kjarasamninga ásamt lífeyrisskuldbindingum vega þungt og skýra að mestu frávik frá fjárhagsáætlun. Það horfir þó til betri tíma og sýna fyrstu mánuðir 2016 að úttekt og rekstrarrýni á árinu 2015, sem leiddi af sér fjölda aðgerða til hagræðinga, er að skila sér beint í reksturinn á sveitarfélaginu. 

Síðustu mánuði höfum við markvisst verið að bjóða út þá þjónustu sem við kaupum að. Það er nauðsynlegt, bæði til að halda okkur á tánum og meðvituðum um gang mála á markaði og ekki síður til að halda þjónustuveitanda á tánum þannig að tryggt sé að við séum að fá 100% þjónustu í takt við auknar þarfir og breytingar í starfsumhverfi. Í flestum tilfellum eru útboðin að skila okkur umtalsverðum ábata og hagræðingu. Þannig höfum við nýlega boðið út öryggisþjónustuna hjá okkur þar sem við erum komin í öruggar hendur Securitas, síma- og fjarskiptaþjónustuna þar sem Vodafone reyndist hlutskarpast og mat fyrir mötuneyti leik- og grunnskóla í bænum þar sem samningaviðræður eru enn í gangi. 

Þessar aðgerðir og aðrar eru að verða til þess að hægt er að endurhugsa fyrirkomulag og veita betri þjónustu á hagstæðari kjörum. Gott dæmi eru nýlegar ákvarðanir um breytingar á gjaldskrá og niðurgreiðslum á fræðslu- og frístundasviði. Þannig mun systkinaafsláttur vera aukinn til muna frá hausti 2016 og mánaðarlegir frístundastyrkir hækkaðir auk þess sem aldursmörk styrkja munu hækka úr 16 árum í 18 ár. Þarna er stigið mikilvægt skref í átt að minni kostnaði fyrir hafnfirskar fjölskyldur, jöfnum aðgangi að íþróttum og frístundum fyrir alla og á sama tíma spornað gegn brottfalli á unglingsaldri. Vonir standa til þess að þessar aðgerðir verði til þess að aukið svigrúm skapist fyrir markvissara viðhald og framkvæmdir innan bæjarfélagsins. Það svigrúm sköpum við með hagræðingu á sviðum sem hægt er að hagræða á án skerðingar á þjónustu og lífsgæðum þeirra sem lifa og starfa í Hafnarfirði. 
Nýlega skrifuðum við undir viljayfirlýsingu við ASÍ sem snýr að uppbyggingu 150 leiguíbúða í Hafnarfirði og ætlaðar eru tekjuminni einstaklingum og fjölskyldum. Með þessu viljum við svara uppsafnaðri þörf á leigumarkaði meðal hóps sem hefur átt nokkuð erfitt um vik.

Lausar lóðir

Nýverið fórum við af stað með auglýsingar á atvinnulóðum sem henta fjölbreyttri starfsemi, eru sveigjanlegar að stærð og hagstæðar í svo mörgu tilliti. Hér er aðallega um að ræða lóðir í ört stækkandi iðnaðarhverfi við Vellina í Hafnarfirði, svæði sem vel staðsett upp á alla flutninga að gera hvort sem heldur er með flugi, flutningabíl eða skipi. Eins stefnir allt í það að vinna við mislæg gatnamót hefjist í síðasta lagi 2017 og mun það greiða leið til og frá svæðinu enn frekar. Við viljum fá til okkar fyrirtæki sem eru í leit að framtíðarstaðsetningu og þannig reiðubúin að bætast í þá flóru fjölbreytts atvinnulífs sem fyrir er á svæðinu. Atvinnuhverfinu er skipt upp eftir starfsemi og því tilbúið til að taka á móti ólíkum fyrirtækjum af öllum stærðum og gerðum s.s. í ferðaþjónustu, verslun, þjónustu, þekkingariðnaði og framleiðslu. Fyrirtæki eins og Icelandair, Promens og Naust-Marine eru meðal þeirra sem hafa komið sér vel fyrir á svæðinu. Innan skamms munum við líka fara með í auglýsingu íbúðalóðir í Skarðshlíðinni þar sem ráðgerð er uppbygging á um 230 íbúðum. Yfirlit yfir lausar lóðir hjá Hafnarfjarðarbæ og nákvæmar upplýsingar er að finna á heimasíðu bæjarins

Skipulagsbreytingar

Allar skipulagsbreytingar hjá Hafnarfjarðarbæ eru auglýstar í Fréttablaðinu auk þess sem fréttir um tillögur að breytingum eru birtar á heimasíðu bæjarins og Facebook síðu. Ákveðið hefur verið að kaupa allt húsnæðið að Lækjargötu 2 sem í daglegu tali gengur undir nafninu Dvergurinn. Fyrirhugað er að vinna við breytingu á deiliskipulagi Lækjargötu – Dvergslóðar og hugsanlega næsta nágrennis hefjist fljótlega. Lóðin er á eftirsóknarverðu svæði fyrir íbúðarbyggð en hefur um árabil verð vannýtt og húsið lítil prýði fyrir ásýnd bæjarins. Tillaga að breytingu á deiliskipulagi við Hellubraut 5 og 7 er í auglýsingu þessa dagana. Breyting felst í því að á lóð við Hellubraut 5 verði nú heimilt að byggja tveggja hæða hús í stað 1,5 hæða og að núverandi hús ásamt bílskúr við Hellubraut 7 verði rifin og í stað þeirra byggt nýtt hús. Kynningarfundur um endurbyggingu Hrauna – vestur var svo haldinn um miðjan júní og var hann vel sóttur. Mikill áhugi er fyrir breytingum og uppbyggingu á þessu svæði sem upphaflega byggðist upp sem iðnaðarhverfi. Nú hafa bæjaryfirvöld í hyggju að reisa þar blandaða byggð fyrir léttan iðnað, þjónustu og íbúðir. 
Ég vona að þessi skrif séu upplýsandi og varpi ljósi á hluta þeirra fjölbreyttu verkefna sem í gangi eru hverju sinni hjá okkur. Ég minni íbúa og fyrirtæki á vikulega viðtalstíma mína á þriðjudagsmorgnum þar sem ég tek glaður á móti þeim sem vilja eiga samtal við mig. Viðtalsbókanir eru í síma 585-5506.

Yfirlit yfir helstu fréttir síðustu daga og vikur:

Ábendingagátt