Styrkir og jafnréttisverðlaun

Fréttir

Í dag var úthlutað samtals 10,8 milljónum króna á þau tíu íþróttafélög sem sóttu um stuðning fyrir barna- og unglingastarfið í sínu félagi. Jafnréttishvataverðlaun hlutu Fimleikafélag Hafnarfjarðar og Sundfélag Hafnarfjarðar.

Í dag var úthlutað samtals 10,8 milljónum króna sem skiptast á þau tíu íþróttafélög sem sóttu um stuðning fyrir barna- og unglingastarfið í sínu félagi. Jafnréttishvataverðlaun hlutu Fimleikafélag Hafnarfjarðar fyrir mestu fjölgun iðkenda þess kyns sem hallaði á sem voru stúlkur og Sundfélag Hafnarfjarðar fyrir mestu prósentufjölgun þess kyns sem hallaði á sem voru drengir.

Eftirtalin íþróttafélög hljóta styrk: 

  • Fimleikafélag Hafnarfjarðar (FH) samtals kr. 2.809.707.-
  • Knattspyrnufélagið Haukar samtals kr. 2.429.191.-
  • Fimleikafélagið Björk samtals kr. 2.418.998.-
  • Sundfélag Hafnarfjarðar (SH) samtals kr. 740.648.-
  • Badmintonfélag Hafnarfjarðar (BH) samtals kr. 349.939.-
  • Dansíþróttafélag Hafnarfjarðar (DÍH) samtals kr. 343.144.-
  • Hestamannafélagið Sörli samtals kr. 295.580.-
  • Golfklúbburinn Keilir samtals kr. 283.689.-
  • Hnefaleikafélag Hafnarfjarðar samtals kr. 66.251.-
  • Íþróttafélagið Fjörður samtals kr. 62.853.-

Tvær úthlutanir á ári

Samningur er í gildi frá árinu 2001 milli Rio Tinto Alcan, ÍBH og Hafnarfjarðarbæjar um stuðning við íþróttastarf 16 ára og yngri iðkenda aðildarfélaga ÍBH.  Árið 2014 var hann síðast endurskoðaður og varð heildarstyrktarupphæðin 18 milljónir á ári, með 9 milljón króna framlagi hvors aðila á ári. Tvær úthlutanir eru á ári. Í vorúthlutun er 60% upphæðarinnar skipt á félögin út frá iðkendafjölda þeirra 16 ára og yngri og í ár er í annað skipti veitt jafnréttishvataverðlaun samkvæmt gildandi samningi, þ.e. þau félög sem fjölga mest annars vegar prósentulega og hins vegar út frá iðkendafjölda því kyni sem hallaði á frá árinu á undan fá sérstaka viðurkenningu. Seinni úthlutun fer fram í desember og er þá verið að greiða 40% af upphæðinni til félaganna út frá námskrám og menntunarstigi þjálfara. 

Skipulagt íþróttastarf skilar verðmætari einstaklingum út í samfélagið

Félögin stefna ávallt að því að auka gæði starfsins og lækka kostnað iðkenda þegar þau hljóta fjárstuðning í formi íþróttastyrkja. Þjálfarar barna og unglinga gegna lykilhlutverki í félögunum við uppeldis-, forvarnar- og íþróttastarf og er ábyrgð stjórnarfólks mikil við að finna og ráða þjálfara sem hafa bæði faglega þekkingu á viðkomandi íþrótt og eru góðir í mannlegum samskiptum. Rannsóknir og greining hafa lagt fyrir kannanir og tekið saman niðurstöður frá árinu 1992 sem sýna að skipulagt íþróttastarf skilar verðmætari einstaklingum út í samfélagið.  Umfangs- og gæðamikið íþróttastarf í sveitarfélögum getur ekki farið fram án stuðnings bæði fyrirtækja og opinberra aðila. Samvinna Hafnarfjarðarbæjar og fyrirtækisins Rio Tinto Alcans um fjárstuðning við íþróttastarf barna og unglinga í hafnfirskum félögum er öllu samfélaginu afar verðmætt. 

Ábendingagátt