Kaldársel 100 ára – Vorhátíð á uppstigningardag

Fréttir

Vorhátíð verður í Kaldárseli á morgun í tilefni af 100 ára afmæli sumarbúðanna. Einnig hefur verið sett upp ljósmyndasýning í tilefni afmælisins í Hellisgerði.

Vorhátíð og sýning fyrir 100 ára Kaldársel

Byggðasafn Hafnarfjarðar hefur komið upp sýningu á myndum frá sumarbúðunum KFUM/K í Kaldárseli í Hellisgerði. Tilefnið er að í ár eru 100 ár liðin frá stofnun þeirra.

Afmælisvorhátíð Kaldársels verður einmitt á morgun fimmtudaginn 29. maí, uppstingingardag. Boðið verður upp á fjölbreytta dagskrá í Kaldárseli frá kl. 11:00-16:00.

Dagskráin hefst formlega kl. 11:00 í Kaldárseli

  • 11:00 Fánahylling og í beinu framhaldi leiðir Þórarinn Björnsson rólega sögugöngu um nærumhverfið.
  • 12:00 Pylsur og fleira í boði fram eftir degi meðan birgðir endast.
  • 13:00 Útisamkoma þar sem Ásgeir Páll Ágústsson leiðir samsöng og séra Petrína Mjöll Jóhannesdóttir hefur hugvekju.
  • 14:00 Tvær gönguferðir: Helgafell og Fosshellir-Valaból.
    Erindi um Kaldársel fyrr og nú í máli og myndum flutt nokkrum sinnum yfir daginn.
  • Einnig rúllandi myndasýning og stuttmynd frá 1948.

Hoppukastalar verða á staðnum og að sjálfsögðu býður náttúran upp á spennandi tækifæri fyrir frjálsan leik.

Ljósmyndasýning í Hellisgerði

Og aftur að sýningunni í Hellisgerði. Svanhvít Tryggvadóttir, sérfræðingur hjá Byggðasafni, vann hana í tilefni afmælisins. Hún segir mikið til af ljósmyndum.

„Þau sendu okkur myndir frá 1925 til dagsins í dag og nú eru skiltin sex. Fimm þeirra spannar hvert 20 ár,“ segir hún. „Lokaskiltið er svo heiðursskilti Sigrúnar Sumarrósar Jónsdóttur matráðs og Benedikts Arnkelssonar forstöðumanns. Þau voru nánast í 50 sumur í sumarbúðum Kaldársels,“ segir Svanhvít.

Frítt í Hellisgerði. Einnig á vorhátíðina í Kaldárseli en frjáls framlög vel þegin.

Innilega til hamingju með öldina í sumarbúðunum!

Ábendingagátt