Markmiðið að bæta námsárangur

Fréttir

Á fundi fræðsluráðs í morgun var samþykkt að efna til samstarfs við leik-og grunnskólana í bænum um nýtt þróunarverkefni sem beinist að því að bæta námsárangur í öllum skólum bæjarins.

Á fundi fræðsluráðs í morgun var samþykkt að efna til samstarfs við leik-og grunnskólana í bænum um nýtt þróunarverkefni sem beinist að því að bæta námsárangur í öllum skólum bæjarins.

Þróunarverkefnið er hugsað til tveggja ára og beinist að því að efla læsi, virkni og námsáhuga á  öllum  námssviðum og  námsgreinum,  með sérstakri áherslu á íslensku og stærðfræði.

Í bókun frá ráðinu segir að það sé stefna og markmið fræðsluyfirvalda í Hafnarfirði að hafnfirskir nemendur standi a.m.k. jafnfætis nemendum nágrannasveitarfélaga hvað námsárangur varðar og er þetta verkefni mikilvægt skref í þá átt.

,,Skólar Hafnarfjarðar hafa undanfarin 5-6 ár verið undir landsmeðaltali í samræmdum könnunarprófum og talsvert undir meðaltali annarra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Það er eitthvað sem við sættum okkur ekki lengur við og leggjum mikla áherslu á að snúa við, “ segir Rósa Guðbjartsdóttir formaður fræðsluráðs Hafnarfjarðar.

Metnaðarfullt læsisverkefni hefur verið í gangi á þessu skólaári sem gengur út á að auka lestrarfærni og lesskilning í leik- og grunnskólum bæjarins. Það nýja verkefni sem nú er samþykkt að ráðast í miðar einnig að því að efla læsi og bæta námsárangur með sérstaka áherslu á íslensku og stærðfræði og munu þessi verkefni því styðja við hvort annað. Fræðsluyfirvöld leggja áherslu á innviði skólastarfs og auk þessa sem að ofan greinir verður m.a.120 milljónum króna varið til ýmissa þróunarverkefna á yfirstandandi fjárhagsári.

„Þetta þróunarverkefni sem nú hefur verið samþykkt að ráðast í er góð viðbót við það en mun leggja sérstaka áherslu á íslensku og stærðfræði. Þessi verkefni styðja því vel hvort við annað.  Við höfum allt til alls hér í Hafnarfirði til að verða í fararbroddi, frábært starfsfólk, skóla og nemendur og það þarf að komast að því hvað þarf að gera til að námsárangur verði betri og bregðast strax við með því að láta verkin tala,“  segir Rósa Guðbjartsdóttir formaður fræðsluráðs.

Ábendingagátt