Músíkmeðferð fyrir börn með margvíslegan vanda

Fréttir

Börnum og ungmennum með margvíslegan vanda stendur áfram til boða að fara í músíkmeðferð hjá Hljómu. Inga Björk Ingadóttir músíkmeðferðarfræðingur stýrir för. Samningurinn hefur verið lengdur til ársloka 2026.

 

Músíkmeðferð gegn margvíslegum vanda

„Engir tveir tímar eru eins,“ segir Inga Björk Ingadóttir, músíkmeðferðarfræðingur og eigandi Hljómu, þegar hún lýsir músíkmeðferðinni hjá Hljómu.

„Þetta er ólíkt ferli hjá hverjum og einum. Ég er með fulla stofu af hljóðfærum, öllum stærðum og gerðum. Svo stígum við inn í ferli þar sem við finnum í sameiningu hljóðfæri sem talar til viðkomandi. Svo nota ég söng og hreyfingu sem miða að þeim áskorunum og markmiðum sem hver og einn hefur.“

Músík við margvíslegum vanda

Hafnarfjarðarbær hefur samið við Hljómu um að 13 börn með margvíslegan vanda; svo sem andlega eða líkamlega fötlun, geðrænan vanda, áföll, félagslegar aðstæður og tilfinningalegan vanda fái tíma í músíkmeðferð. Inga Björk og Valdimar Víðisson bæjarstjóri rituðu undir samstarfssamninginn fyrr í dag.

  • Til að taka þátt í starfinu þarf að sækja um hjá Hljómu, hljoma.is.

„Við höfum öll persónulega tengingu við tónlist og afar fáir sem geta hugsað sér lífið an tónlistar. Hún er órjúfanlegur partur af okkur og allt í kringum okkur; fuglasöngur, hjartsláttur í móðurkviði,“ lýsir Inga Björk. Takturinn sé strax til staðar.

„Þú heyrir í blóðrás móðurinnar i móðurkviði. Tónlist er hluti af heiminum og umlykur okkur öll. Svo erum við tengd henni á ólíkan og persónulegan hátt. Hún er einmitt svo frábært meðferðartæki af því að hún er partur af okkur. Þú tengist heiminum og lífinu,“ lýsir Inga Björk undurfallega.

Grunntaktur og tjáning án orða

„Hver og einn hefur sinn eigin grunntón, takt, flæði og hraða,“ segir hún og þegar unnið sé markvisst með tónlistina sé hún svo ótrúlega öflug. Meðferðin henti vel þeim sem eigi erfitt með hefðbundna tjáningu.

„Tónlistin nær á dýptina á sviði sem önnur meðferðarform ná ekki til á sama hátt. Við getum verið að tjá okkur við hvert annað þegar við spilum saman tónlist. Grípum hljóðfæri eða syngjum – Blússandi tjáning og samskipti þótt við notum ekki orðin.“

Inga segir músíkmeðferð oft henta einmitt þar sem samtalsmeðferð geri það ekki. „En tónlistin nær þar í gegn. Hún er svo magnað tæki. Ég get ekki sagt það nógu oft og nógu hátt.“

Tónlistin köllun og lærði í Berlín

Inga Björk lærði músíkmeðferð í Berlín á árunum 2001-2006. „Ég hef verið tengt tónlist frá því að ég man eftir mér. Tónlistin á stóran part af mér og er mitt persónulega athvarf. Mig langaði að vinna með hana en var ekki spennt fyrir hreinu sviðslífi þótt ég sé tónlistarkona líka. En það eitt og sér er einhæft,“  lýsir hún.

„Svo las ég grein um músíkmeðferð fjórtán ára og það var ekki aftur snúið,“ segir Inga Björk sem lauk tónlistar- og sálfræðibraut í MH og fór 23 ára út í músíkmeðferðarnám og sneri aftur fyrir rúmum áratug með fjölskylduna og stofnaði Hljómu í Hafnarfirði.

„Ég elska vinnuna mína og er heppin að hafa fundið þetta fag. Ég hlakka til að vinna áfram með börnunum sem sækja tímana í Hljómu. Og höfum í huga: Það þarf enga þekkingu á tónlist fyrir músíkmeðferð. Við erum að vinna með grunnþættina.“

 

Ábendingagátt