Nýtt hafrannsóknarskip á heimahöfn í Hafnarfirði

Fréttir

Nýtt hafrannsóknarskip landsmanna Þórunn Þórðardóttir HF 300 stendur nú í höfn Hafnarfjarðar, sinni heimahöfn. Skipið tekur við af skipinu Bjarna Sæmundssyni sem hefur þjónað frá árinu 1970.

Fyrsta rannsóknarskipið nefnt eftir konu

Margt var um manninn í formlegri móttöku hafrannsóknarskipsins Þórunnar Þórðardóttur HF 300 í gærdag. Bæjarstjórnin var meðal gesta en atvinnuvegaráðherra og stofnunin buðu til móttökunnar. Þau fögnuðu með starfsfólki og öðrum sem komu að ákvörðuninni um þetta glænýja hafrannsóknarskips í flota þjóðarinnar. Móttakan var haldin í höfuðstöðvum Hafrannsóknarstofnunar að Fornubúðum. Skipið á sína heimahöfn í Hafnarfirði.

Stórglæsilegt, til hamingju

Valdimar Víðisson bæjarstjóri færði forstjóra Hafrannsóknarstofnun blóm fyrir hönd Hafnarfjarðarbæjar. „Skipið er allt hið glæsilegasta og búið nýjustu tækjum og tólum til rannsókna,“ segir og bendir á að Þórunn Þórðardóttir, sem skipið er nefnt eftir, hafi verið fyrst íslenskra kvenna til að verða sérfræðingur í hafrannsóknum.

„Það fór því vel á því að skipið kom í heimahöfn í fyrsta sinn á Alþjóðlegum baráttudegi kvenna, 8.mars,“ segir hann. „Ég óska Hafrannsóknarstofnun, áhöfn Þórunnar og Íslendingum öllum til hamingju með nýtt og glæsilegt skip.“

  • Skipið Þórunn tekur við af rannsóknaskipinu Bjarna Sæmundssyni sem hefur sinnt hafrannsóknum allt frá árinu 1970.

Skip okkar allra landsmanna

Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra afhenti Hafrannsóknarstofnun skipið formlega. „Með öflugum rannsóknum getum við tryggt að ákvarðanir sem varða nýtingu á auðlindum hafsins verði teknar á traustum vísindalegum grunni,“ sagði hún. Ákvörðunin varðaði ekki aðeins efnahag þjóðarinnar heldur einnig verndun lífríkis og sjálfbærni auðlindarinnar.

„Þetta er svo sannarlega skip okkar allra landsmanna,“ sagði Hanna Katrín og að skipasmíðin hefði gengið val. Verkefnið hefði haldist innan fjárheimilda. „Það er góður vitnisburður um gott skipulag, agaða framkvæmd og virðingu sem smíðannefnd og samstarfsaðilar hafa sýnt gagnvart þeim fjármunum sem Alþingi fól þeim  til verkefnisins. Nokkuð sem er sannarlega til eftirbreytni.“ Hún þakkaði öllum sem komu að verkinu. Nýja rannsóknarskipið muni skapa tækifæri í hafrannsóknarstofnun fyrir Ísland.

Ábendingagátt