Opið hús í glænýju þjónustuveri 17. júní

Fréttir

Þjónustuver Hafnarfjarðarbæjar opnar að Strandgötu 8-10 stundvíslega kl. 8 þann 18. júní. Opið hús verður milli kl. 13-17 á þjóðhátíðardaginn og heitt á könnunni.

Hafnfirðingar fá nýtt þjónustuver

Stakkaskipti verða um miðjan mánuðinn þegar nýtt og uppfært þjónustuver Hafnarfjarðar verður opnað til að þjónusta íbúa bæjarins enn betur. Þjónustuverið færist til innan ráðhússins og verður þar sem Íslandsbanki er nú. Já, það flytur frá Strandgötu 6 að Strandgötu 8-10. Bankinn verður einnig enn á sínum stað og inngangurinn milli þjónustuvers og Íslandsbanka sameiginlegur á horni Strandgötu og Linnetstígs. Formleg opnun þjónustuversins verður 17. júní milli kl. 13-17.  

Öll velkomin á þjóðhátíðardaginn

„Við tökum við á móti bæjarbúum og sýnum þeim nýju starfsstöðina,“ segir  Anna Bára Gunnarsdóttir, deildarstjóri þjónustuversins. Kaffi og kleinur í boði. 

„ Við erum að stækka aðstöðuna og bæta alla þjónustuna enn frekar við íbúa,“ segir Anna Bára. Núverandi þjónustuver, sem hafi verið starfrækt frá 2003, hafi verið orðið of lítið.  

„Stærri móttaka. Fundarrými betri. Öll viðtalsherbergi verða aðgengilegri. Þetta er líka bætt vinnuaðstaða sem við fögnum,“ segir Anna Bára. „Símaverið verður aðskilið frá almennri aðstöðu í nýja þjónustuverinu. Það skapar meira næði sem er afar ákjósanlegt. Húsnæðið er orðið bæði glæsilegt og fallegt og nýtist næstu áratugi.“ 

Nýtt þjónustuver fyrir breyttan bæ

Anna Bára bendir á að á þeim rúmu 20 árum síðan þjónustuverið hafi verið opnað hafi margt breyst í Hafnarfirði. Íbúum hafi til að mynda fjölgað mikið eða um 52%, úr 20.720 í 31.525. 

„Þjónustan hefur breyst og við fögnum því að geta þjónustað íbúa sem allra best í þessari góðu aðstöðu. Við tökum fagnandi á móti ykkur íbúum og leggjum okkur fram um að leysa málin sem upp koma vel.“ Já, sama húsið, sama góða starfsfólkið nýr inngangur og glæsilegt nýtt rými.

  • Verið velkomin í opna húsið 17. júní kl. 13-17  
  • Þjónusta hefst 18. júní kl. 8. 

„Við verðum í hátíðarskapi 17. júní. Öll velkomin.“  

Ábendingagátt