Öskudagurinn í máli og myndum

Fréttir

Öskudagurinn var litríkur og skemmtilegur að vanda í hjarta Hafnarfjarðar. Börnin þefuðu sykurinn upp og sungu undursamlega fyrir hverjum mola.

Öskudagurinn í hjarta Hafnarfjarðar

Gleði og gaman var á götum í miðbæ Hafnarfjaðrar í dag, Öskudag. Börnin hlupu sykursæt á milli verslana, bókasafnsins og þjónustuversins. Sum slæddust inn á skrifstofu bæjarstjóra. Nammi í boði og söngurinn ómaði. Lögin misjöfn og mörg, flutningurinn vandaður og af lífi og sál – Enda mikið í húfi!

Eins og segir á Vísindavef Háskólans er Öskudagur upphafsdagur lönguföstu, miðvikudagurinn í 7. viku fyrir páska. Ekki er hægt að ganga að dagsetningunni vísri. Hún getur sveiflast á milli 4. febrúar til 10. mars. En í ár er Öskudagur 5. mars.

Hreinsunardagurinn mikli

En af hverju heitir dagurinn Öskudagur? „Öskudagur hefur lengi verið mikilvægur í katólska kirkjuárinu og nafn hans er dregið af því að þá er sums staðar ösku dreift yfir höfuð kirkjugesta, og til þess notaður jafnvel sérstakur vöndur. Annars staðar þekkist að ösku sé smurt á enni kirkjugesta. Eins og lesa má á mörgum stöðum í Biblíunni, táknar aska hið forgengilega og óverðuga en að auki hefur hún verið talin búa yfir heilnæmum og hreinsandi krafti. Langafasta er hinn kirkjulegi tími iðrunar og dreifing ösku yfir söfnuðinn minnir hann á forgengileikann og hreinsar hann um leið af syndum,“ segir á vef Vísindavefjarins.

Njótum myndanna og gleðinnar með börnunum.

Ábendingagátt