Reisugildi fyrir knatthús Hauka að Ásvöllum

Fréttir

Bæjarfulltrúar, forsvarsmenn Hauka og verktakar fögnuðu því saman í gær að síðasta sperran í nýtt knatthús Hauka að Ásvöllum er risin. Reisugildið var fjölmennt og stemningin góð enda eftirvæntingin eftir þessu fjölnota, upphitaða íþróttamannvirki mikil.

Síðasta sperran í nýtt knatthús risin

Bæjarfulltrúar, forsvarsmenn Hauka og fulltrúar ÍAV fögnuðu því saman í gær að síðasta sperran í nýtt knatthús Hauka að Ásvöllum væri risin. Reisugildið var fjölmennt og stemningin góð enda eftirvæntingin eftir þessu fjölnota, upphitaða íþróttamannvirki mikil. Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri tók fyrstu skóflustunguna að þessu nýja knatthúsi Hauka mánudaginn 12. apríl 2021 á 90 ára afmælisdegi knattspyrnufélagsins. Samið var við ÍAV um framkvæmdirnar eftir útboð og er verkið á áætlun.

Verkið hálfnað og húsið að taka á sig mynd

Fagnað var í gær að stálvirkið væri allt risið og allri steypuvinnu lokið. Nú verður þakklæðningin sett á, húsið einangrað og það klætt að utan. Um helmingur verksins er að baki og Haukar farnir að sjá til lands. Stefnt er að því að taka húsið í notkun strax í desember og mun knatthúsið geta hýst leiki í efstu deild. Lofthæðin er mest 20 metrar og mun það taka hátt í 900 manns í sæti. Þótt áherslan sé á knattspyrnu verður húsið fjölnota.

Draumurinn verður að veruleika

Haukar hafa lengi beðið eftir bættri aðstöðu til knattspyrnuiðkunar á Ásvöllum og með tilkomu glæsilegs knatthúss verður sá draumur að veruleika. Glæsileg mannvirki hafa risið á Ásvöllum síðustu áratugina. Nýtt glæsilegt knattspyrnuhús mun gjörbreyta allri aðstöðu Hauka.

Áfram Haukar!

Ábendingagátt