Sipp-áskorun Skemmtiferðarinnar

Fréttir

Skemmtiferðin er framtak sem Snorri Már Snorrason hefur staðið  fyrir frá árinu 2012. Framtakinu er ætlað að vekja athygli á mikilvægi hreyfingar fyrir alla og þá ekki síst þá sem eru að berjast við hvers kyns sjúkdóma. Skemmtiferðin er nú farin af stað með skemmtilega sipp-áskorun sem öll geta tekið þátt í.

Sippubandið er þema Skemmtiferðarinnar sumarið 2023 

Skemmtiferðin er framtak sem Snorri Már Snorrason hefur staðið  fyrir frá árinu 2012 þegar hann fór sjálfur fyrst hjólandi hringveginn undir merkjum Skemmtiferðarinnar. Framtakinu er ætlað að vekja athygli á mikilvægi hreyfingar fyrir alla og þá ekki síst þá sem eru að berjast við hvers kyns sjúkdóma. Snorri Már var greindur með Parkinson árið 2004 og berst fyrir lífi sínu með reglulegri hreyfingu. Þannig reynir hann að hámarka lífsgæði sín og hvetur aðra til að gera slíkt hið sama með einföldum og skemmtilegum hætti eins lengi og mikið og lífið leyfir. Skemmtiferðin er nú farin af stað með lauflétta og skemmtilega sipp-áskorun sem öll geta tekið þátt í.

Frá tónlistarskóla til ráðhúss til bókasafns

Skemmtiferðin ætlaði að fara um landið þetta árið og heimsækja öll skíðasvæðin en sökum snjóleysis fór loftið fljótt út þeirri blöðru. Aðstandendur ákváðu í staðinn að sippubandið yrði þemað fyrir sumarið 2023 og hvetja landsmenn alla til að taka upp sippubandið og byrja að sippa. Tónlistarskóli Hafnarfjarðar fékk sipp-áskorun frá Skemmtiferðinni og við tók tveggja daga sipp um ganga og sali tónlistarskólans. Eiríkur Stephensen skólastjóri tónlistarskólans afhenti svo sippubandið áfram til mannauðsdeildar Hafnarfjarðarbæjar sem staðsett er í Ráðhúsi Hafnarfjarðar að Strandgötu 6. Síðustu daga hafa sipparar sést víða um ganga ráðhússins og í dag var sippubandið afhent áfram til starfsfólks á Bókasafni Hafnarfjarðar. Hafnarfjarðarbær hefur verið heilsueflandi vinnustaður síðan 2022 og heilsueflandi samfélag síðan 2015 og tekur því áskoruninni fagnandi.

Mikilvægt að búa að innri orku og viljastyrk

Sipp-áskorunin er einföld og leikurinn nokkuð léttur og hefst þegar tekið hefur verið við sippubandinu. Einstaklingar eða hópar æfa sig í sippinu í tvo daga og svo er skorað á aðra með því að afhenda sippubandið áfram. Hægt er að skora á vinnustaði, vinahópa, saumaklúbba, bókaklúbba og fleira. Skemmtiferðin setur engar kröfur um getu, magn eða hraða. Eina krafan er að reyna og vera með. Þið sendið tölvupóst á netfangið: hringferd@gmail.com þar sem fram kemur nafnið á þátttökuhópi og síðan á hvern skorað er. Hvatningu með hreyfingunni er sérstaklega beint til þeirra sem eru að berjast við Parkinson og á sama tíma er athygli vakin á þeirri baráttu sem greindir þurfa að heyja á degi hverjum. Í þeirri daglegu baráttu er dýrmætt að búa að innri orku og viljastyrk.

Parkinson er sjúkdómur sem vex hvað hraðast meðal taugasjúkdóma í dag

Parkinson er sá tauga- og hrörnunarsjúkdómur sem vex hvað hraðast meðal taugasjúkdóma í dag. Með reglubundinni hreyfingu er hægt að halda ákveðnum einkennum í skrefjum eins og orkuleysi, krampa, hægari hreyfigetu, jafnvægisleysi, drift, þunglyndi og áhugaleysi svo eitthvað sé nefnt. Parkinsonsamtökin, sem eru til húsa í 3. hæð í Lífsgæðasetri St. Jó, hafa reynst mörgum algjör lífsbjörg í baráttu við sjúkdóminn. Þar má sækja ráðgjöf, stuðning, þjálfun og dagdvöl með sérhæfðri endurhæfingu. Í Lífsgæðasetri má í dag finna skapandi samfélag einstaklinga, félagasamtaka og fyrirtækja sem eiga það sameiginlegt að auka lífsgæði viðskiptavina sinna með áherslu á heilsu, samfélag og nýsköpun.

Ábendingagátt