Skapandi ruslaskrímsli á staurum miðbæjarins

Fréttir

Listahópur Vinnuskóla Hafnarfjarðar hefur breytt litlum grænum ruslatunnum í lítil ruslaskrímsli sem gleypa ruslið sem í þær fer. Sautján ungmenni eru í listahópi vinnuskóla bæjarins.

Skapandi ruslaskrímsli í miðbænum

Litlar ruslatunnur bæjarins hér í miðbænum munu á næstu dögum virkilega gleðja augað. Listahópur Vinnuskóla Hafnarfjarðar hefur verið að mála nokkrar þeirra til að lífga upp á lífið. Það hefur svo sannarlega tekist og unga fólkið sett sitt mark á þær, eins og þær munu svo gera á okkur hin!

Verkið kalla þau skapandi ruslaskrímsli og er opið á tunnunum nýtt sem munnur á skrímslunum.

En hvernig kviknaði þessi hugmynd? „Hugmyndin kom upp í umræðum. Þau fóru á hugarflug og einn úr hópnum hafði séð þetta gert og hópurinn greip hugmyndina,“ segir Sigríður Diljá Vilhjálmsdóttir, verkefnastjóri Vinnuskóla Hafnarfjarðar.

„Hópurinn gerði skissur og svo fór svo í að pússa tunnurnar niður og grunna. Hann flutti svo myndirnar sem hann hafði teiknað yfir á tunnurnar,“ segir hún.

„Við fengum marga liti frá Flugger, alls konar prufur. Svo kom þetta svona ótrúlega vel út. Ég hef því sent út beiðni um að fá að mála fleiri tunnur. Við bíðum eftir svari.“

Hve margar tunnur hefur hópurinn nú málað? „Eins og er hafa þau fengið leyfi fyrir átta tunnum. Þær verða settar upp frá Vesturbæjarísbúðinni á Strandgötu að Nýsköpunarsetrinu og svo í átt að Hörðuvöllum,“ segir Diljá en í hópnum eru sautján krakkar á aldrinum 15-17 ára.

En eru verkefni listahóps vinnuskólans fleiri í sumar? „Já,“ segir hún. „Þegar nær dregur Pride-viku munum við mála Linnetstíginn, eins og við höfum gert á hverju ári.“

Unga fólkið í listahópnum sótti um í gegnum Völu. Þau fóru í viðtöl hjá flokkstjóra sem skiptaði svo í hópinn. Þau vinna með hópnum á sama tíma og vinnuskólinn er að störfum eða frá 9-12 og aftur frá 13-16. „Svo fer það eftir aldri hvað þau eru lengi,“ segir Diljá. Allir hópar hafi svo lokið störfum um Verslunarmannahelgi. Hún segir gaman að fylgjast með störfum unga fólksins.

„Það er svo gaman að sjá sköpunargáfur þeirra brjótast fram,“ segir hún.

„Við vonum svo að þegar fólk hendir rusli í þessi skapandi ruslaskrímsli hugsi það um umhverfið.“ En, hvenær fara tunnurnar upp? „Við stefnum á að þær fari upp næstu daga,“ segir Diljá og hvetur ungt fólk til að kynna sér listhópinn og aðra innan vinnuskólans og sækja um fyrir næstu ár.

Já, þetta er gleðilegt!

Ábendingagátt