Skapandi sumarstörf – Áferð fjallanna

Fréttir

Íris Egilsdóttir vinnur að því að hanna og útfæra prjónað verk á vegum skapandi sumarstarfa í Hafnarfirði í ár. Verkið, sem er unnið úr ull, ber nafnið Áferð fjallanna og er innblásið af skuggunum, dýnamíkinni, formunum og áferðum fjallanna í kring. 

Hvetur fólk til að gleyma sér í fjölbreytileika náttúrunnar

Unga listakonan og hönnuðurinn Íris Egilsdóttir stundar nám í textílhönnun við Designskolen Kolding, þar sem hún hefur lokið tveimur árum af BA-námi. Íris vinnur markvist að því að hanna og útfæra prjónað verk úr ull á vegum skapandi sumarstarfa í Hafnarfirði í ár.

„Verkið mitt ber nafnið Áferð fjallanna og er innblásið af skuggunum, dýnamíkinni, formunum og áferðum fjallanna í kring, en þetta eru einmitt lykilþættir sem ég vinn út frá. Markmið mitt er að hvetja fólk til að horfa í kringum sig, gefa sér tíma til að virða fyrir sér náttúruna og gleyma sér  í fjölbreytileikanum og smáatriðunum. Ég nota ull sem efnivið og prjóna verkið á prjónavél, þar sem ég nota aðferðir til þess að að skapa form og áferðina. Ég mun setja upp sýningu í einu af glerhúsunum í miðbæ Hafnarfjarðar og vona að sem flestir sjái sér fært að kíkja við.“

  • Hér má fylgjast með þessari efnilegu listakonu og framvindu verkefnisins!

UM SKAPANDI SUMARSTÖRF 2025

Sumarið 2021 ákvað Hafnarfjarðarbær í samstarfi við Ungmennahús bæjarins, Hamarinn, að endurvekja verkefnið “Skapandi sumarstörf” sem hafði verið starfrækt sumarið 2017. Þá bauðst einstaklingum og hópum á aldrinum 18-25 ára að koma með hugmyndir að skapandi verkefnum í Hafnarfirði. Valdir hópar fengu tækifæri til að starfa við ýmis skapandi verkefni á ýmsum sviðum lista sem einnig myndu lífga upp á mannlífið í bænum, gleðja ferðamenn og íbúa með einum eða öðrum hætti. Starfsfólki Skapandi sumarstarfa, sem rekið er sem hluti af Vinnuskóla Hafnarfjarðar er ætlað að glæða bæinn lífi, gera hann skemmtilegri, fallegri og fjölbreyttari með listrænum og skapandi uppákomum. Verkefnin eru fjölbreytt og höfða til mismunandi aldurshópa og áhugasviða. Þorbjörg Signý Ágústsson er verkefnastýra Skapandi sumarstarfa.

Í ár eru níu fjölbreytt verkefni sem starfa á vegum skapandi sumarstarfa og verða þau kynnt vikulega í sumar.

Ábendingagátt