Skapandi sumarstörf – Una & Kristijonas

Fréttir

Fjöllistadúóið sem samanstendur af Unu Mist og Kristijonas, vinna við hljóðlist, tónlist og hljóðfærasmíði á vegum skapandi sumarstarfa í Hafnarfirði í ár. Markmið verkefnisins „Ómstaður“ er að nýta tónlist og hljóð til að kanna tengsl mannsins við eigið umhverfi, styðja við sjálfbærni í listsköpun og rannsaka svæðisbundna hljóðheima.

Fjöllistadúóið sem samanstendur af Unu Mist og Kristijonas, vinna við hljóðlist, tónlist og hljóðfærasmíði á vegum skapandi sumarstarfa í Hafnarfirði í ár. „Markmið verkefnisins „Ómstaður“ er að nýta tónlist og hljóð til að kanna tengsl mannsins við eigið umhverfi, styðja við sjálfbærni í listsköpun og rannsaka svæðisbundna hljóðheima.“

Skapa hljóðfæri úr leir, skeljum og gömlum leikföngum

„Í sumar höfum við safnað efniviði alls staðar að, bæði úr náttúrunni og úr nytjamarköðum og stefnum að því að byggja ný og einstök hljóðfæri úr því sem við finnum. Einnig höfum við farið í fjölmargar vettvangsferðir og tekið upp hljóð úr náttúrunni og borgarlífinu sem við munum nýta sem efnivið í tónsköpun. Þann 17. júní settum við upp innsetningu í Nýsköpunarsetrinu við Lækinn. Við sýndum tvö ný hljóðfæri sem við bjuggum til úr leir, skeljum og gömlum leikföngum.“

Yfirnáttúrulegir hljóðheimar

Una Mist er tónlistarframleiðandi og hljóðfærasmiður frá Reykjavík og er nú að ljúka BA námi á Nýmiðla Tónsmíðabraut við Listaháskóla Íslands. Hún sækir innblástur í eigið náttúrulegt umhverfi og nýtir efnivið sem hún finnur til að byggja rafhljóðfæri. Í tónsköpun sinni leikur hún með mannlegar tilfinningar og stafræna hljóðhönnun til að skapa einstaka og stundum yfirnáttúrulega hljóðheima.

Náttúran og borgarlífið veitir innblástur

Kristijonas Groblys er tónlistarmaður og hljóðverkfræðingur ættaður frá Vilníus í Litháen. Hann er nú að ljúka BA námi í Art of Sound við Konunglega tónlistarháskólann í Den Haag í Hollandi. Hann hefur reynslu í hljóðtækni, upptökustjórn og hljóðhönnun. Hann notar gjarnan hljóðupptökur sem hann safnar úr ólíkum umhverfum og rýmum, bæði úr náttúrunni og borgarlífinu sem efnivið í tónlistarsköpun sína.

Frumflutningur á afrakstri sumarsins

„Að lokum viljum við koma fram á tónleikum þar sem við sýnum afrakstur verkefnisins, spilum á hljóðfærin okkar og frumflytjum tónlistina.“

Það leynir svo sannarlega ekki á sköpunarkraftinum hjá þessu unga fólki, við hvetjum ykkur eindregið til að fylgjast með verkefninu og nánari upplýsingum um tónleikana þegar nær dregur.

  • Hér og Hér má fylgjast með þeim á Instagram

UM SKAPANDI SUMARSTÖRF 2025

Sumarið 2021 ákvað Hafnarfjarðarbær í samstarfi við Ungmennahús bæjarins, Hamarinn, að endurvekja verkefnið “Skapandi sumarstörf” sem hafði verið starfrækt sumarið 2017. Þá bauðst einstaklingum og hópum á aldrinum 18-25 ára að koma með hugmyndir að skapandi verkefnum í Hafnarfirði. Valdir hópar fengu tækifæri til að starfa við ýmis skapandi verkefni á ýmsum sviðum lista sem einnig myndu lífga upp á mannlífið í bænum, gleðja ferðamenn og íbúa með einum eða öðrum hætti. Starfsfólki Skapandi sumarstarfa, sem rekið er sem hluti af Vinnuskóla Hafnarfjarðar er ætlað að glæða bæinn lífi, gera hann skemmtilegri, fallegri og fjölbreyttari með listrænum og skapandi uppákomum. Verkefnin eru fjölbreytt og höfða til mismunandi aldurshópa og áhugasviða. Þorbjörg Signý Ágústsson er verkefnastýra Skapandi sumarstarfa.

Í ár eru níu fjölbreytt verkefni sem starfa á vegum skapandi sumarstarfa og verða þau kynnt vikulega í sumar.

Ábendingagátt