Snyrtileikinn 2024 og Rosa Moeller fær heiðursverðlaun

Fréttir

Austurgata 12, Venusarhús, er handhafi Snyrtileikans 2024. Þá var Rosa K. Moeller sæmd heiðursverðlaunum í þágu samfélagsins. Tíu íbúðahús fengu viðurkenningu í ár, tvö fyrirtæki og heil gata. 

Rosa sæmd heiðursverðlaunum

Rosa K. Moeller var í gær sæmd heiðursverðlaunum í þágu samfélagsins í Hafnarfirði við fallega athöfn í Hellisgerði. Hún fær viðurkenninguna fyrir framlag sitt til hafnfirsks samfélags. Rosa gengur reglulega um hafnarsvæðið og nærliggjandi götur og hreinsar þar bæði rusl og illgresi upp á sitt eindæmi í frítíma sínum.  

Austurgata 12, Venusarhús, er handhafi Snyrtileikans 2024. „Bæði fasteign og lóð áberandi snyrtileg og mikill metnaður verið í að halda í útlit þessa gamla fallega hús, segir í rökstuðningnum. Á annan tug fengu í gær þriðjudaginn 24. september viðurkenninguna Snyrtileikinn 2024 frá Hafnarfjarðarbæ. Eigendur átta heimila og íbúðarhúsnæðis, tveggja fyrirtækja og íbúar götunnar Heiðvangs en hún var valin gata ársins. „Undanfarin ár hefur þessi fjölmenna gata verið áberandi vel snyrt og íbúar greinilega samhuga um að halda sínu umhverfi snyrtilegu,“ segir í rökstuðningnum. 

Fyrirtæki ársins í snyrtimennsku standa við Hringhellu 12. Ísrör ehf og Málmar ehf. hlutu viðurkenninguna og segir í rökstuðningnum að aðkoman að lóðinni sé áberandi snyrtileg þrátt fyrir þann rekstur sem um ræðir. „Áberandi hvað mikið er lagt upp úr að hafa snyrtilegt umhverfið.”

Garðarnir í Hafnarfirði sem veitt var viðurkenning fyrir nú eru: 

  • Fagraberg 32. „Vel snyrt stór lóð í grónu hverfi. Greinilegt að íbúar leggja metnað í að halda þessari stóru lóð fallegri.“ Eigendur: Guðrún Harðardóttir og Pétur Einarsson. 
  • Fagraberg 10. „Falleg vel snyrt lóð sem vel er tekið eftir þegar keyrt er eftir Hamraberginu.“ Eigendur: Kristbjörg Helgadóttir og Már Gunnþórsson. 
  • Ljósaberg 44. „Falleg vel snyrt lóð og fasteign sem er áberandi þegar keyrt er eftir Hamraberginu.“ Eigendur: Auður Traustadóttir og Guðmundur Ástvaldur Tryggvason. 
  • Fléttuvellir 6. „Vel skipulögð og snyrt lóð í nýlegu hverfi en lóðin er hornlóð og áberandi þegar keyrt er inn Fléttuvellina.“ Eigendur: Arndís Edda Jónsdóttir og Bergþór N. Bergþórsson. 
  • Glitvangur 13. „Mikið endurnýjuð lóð í grónu hverfi þar sem íbúar hafa nýtt hvern fermeter vel en lóðin er frekar lítil og sýnir hve vel má nýta hannað svæði til útiveru.“ Eigendur: Garðar Vilhjálmsson og Gestrún Hilmarsdóttir. 
  • Hrauntunga 28. „Fallegur gróinn garður með mjög fjölbreyttu plöntuvali. Garður sem mikið er nostrað við svo vel er tekið eftir.“ Eigendur: Anna Guðný Eiríksdóttir og Egill Jónsson. 
  • Ölduslóð 12. „Tvíbýli sem búið er að byggja upp á skemmtilegan hátt með öllu því sem þarf til að nota garðinn sem framlengingu við húsið.“ Eigendur: Eyrún Ósk Friðjónsdóttir, Rós Sveinbjörnsdóttir og Kjartan Jónmundsson. 
  • Strandgata 79. „Fjölbýli í grónu hverfi þar sem garðurinn hefur fengið gott atlæti og uppbyggingu til að íbúar njóti garðsins yfir sumarið til útiveru. Fjölbreytt plöntuval sem gefur honum skemmtilegt yfirbragð.“ Eigendur: Fjóla Vatnsdal Reynisdóttir, Kristín Björk Hermannsdóttir og Sigrún Oddsdóttir. 
  • Hádegiskarð 20. Drangskarð 11. „Lóð snyrtilega frágengin í nýju hverfi með hleðslum, grasi og gróðri. Fasteignirnar fengu umhverfisvottun sumarið 2024. Eigendur: Rentur ehf. 
Ábendingagátt