Stutt í næsta bekk

Fréttir

Brúkum bekki er samfélagsverkefni sem staðið hefur frá árinu 2013 og er nú svo komið að Hafnfirðingar og aðrir gestir geta gengið um nær öll hverfi Hafnarfjarðar og hvílt sig á bekk með um 250 – 300 metra millibili.

Brúkum bekki er samfélagsverkefni sem staðið hefur yfir frá árinu 2013 og er nú svo komið að Hafnfirðingar og aðrir gestir geta gengið um nær öll hverfi Hafnarfjarðar og hvílt sig á bekk með um 250 – 300 metra millibili. Um er að ræða sameiginlegt verkefni Öldungaráðs, Félags eldri borgara í Hafnarfirði, Félags sjúkraþjálfara og Hafnarfjarðarbæjar.

Á vorfundi Öldungaráðs Hafnarfjarðar þann 5. maí 2012 var undirritað samkomulag um samfélagsverkefnið, „Brúkum bekki“, milli Öldungaráðs, FEBH, Félags sjúkraþjálfara og Hafnarfjarðarbæjar. Síðan þá hafa verið settir upp 43 bekkir. Markmið með verkefni er að stuðla að aukinni hreyfingu eldri borgara og gera þeim kleift að fara út að ganga í sínu nærumhverfi. Verkefnið felur í sér að fá sveitarfélög, fyrirtæki, félagasamtök, stofnanir og jafnvel einstaklinga til að styrkja verkefnið með því að taka að sér að greiða fyrir gerð bekkjar eða bekkja. Bekkirnir  eru framleiddir hjá Málmsteypunni Hellu og eru merktir gefendum eða þeim aðila sem gefandi vill tileinka bekkinn. Málmsteypan Hella gefur að auki ellefta hvern bekk. 

Brúkum bekki – nýtt kort yfir gönguleiðir

Nýtt kort af Hafnarfjarðarbæ, sem sýnir allar gönguleiðir þar sem bekkir eru með 250 til 300 metra millibili, hefur nú verið gefið út. Veggkort er að finna  í öllum íþróttahúsum, sundstöðum, í Hraunseli, Hjallabraut 33, Hrafnistu, Höfn og í þjónustuveri Hafnarfjarðarbæjar.  

Brúkum bekki – nýtt kort yfir gönguleiðir er að finna hér

Samstarf sem gefið hefur af sér 43 bekki

Leitað var strax á upphafsári til fyrirtækja og félagasamtaka í Hafnarfirði að koma að verkefninu. Í fyrsta áfanga sem kom til framkvæmda 2013 voru settir upp samtals 30 bekkir. Hafnarfjarðarbær gaf verkefninu tíu bekki og Málmsteypan Hella, Kvenfélagið Hringur og Verkalýðsfélagið tvo bekki.  Actavis, Arion-banki, Atlantsolía, Hvalur, IKEA, Verkfræðistofa VSB, Kiwanisklúbburinn Hraunborg, Félag eldri borgara Hafnarfirði, Starfsmannafélag Hafnarfjarðar, Sjúkraþjálfarinn, Bandalag kvenna Hafnarfirði, Lionsklúbbur Hafnarfjarðar og Rótaríklúbbur Hafnarfjarðar gáfu svo öll sinn bekkinn hver.  Í öðrum áfanga verkefnis var leitað til hönnunardeildar Iðnskólans í Hafnarfirði, nú Tækniskólans, um að koma að hönnun og smíði bekkja til að staðsetja við helstu náttúruperlur og útsýnisstaði í Hafnarfirði svo sem Ástjörn og Hvaleyrarvatn og liggur nú fyrir samþykkt tillaga að hönnun.  Í þriðja áfanga sem fór af stað 2015 bættust eftirtalin  fyrirtæki, félagasamtök og einstaklingar í hópinn sem samstarfsaðilar: Fjarðarkaup, Íslandsbanki, Frímúrarastúkurnar Hamar og Njörður, Kiwanisklúbburinn Eldborg, Guðlaugur Jónasson, Málmsteypan Hella, Valitor með 3 bekki og Öldrunarmiðstöðin Höfn með 2 bekki. Í heild 11 bekkir. Í ár hafa tveir bekkir bæst við, annar frá Hafnarfjarðarhöfn og hinn frá Lionsklúbbnum Kaldá þannig að í heild hafa 43 bekkir verið settir upp af verkefninu. Er hér um að ræða hreina viðbóta við þá bekki Hafnarfjarðarbæjar sem fyrir voru á gönguleiðunum.

Verkefnið heldur áfram

Verkefnið heldur áfram og eru allir þeir sem vilja koma að verkefninu hvattir til að hafa beint samband við verkefnastjórn. Í forsvari fyrir verkefnastjórn er Gylfi Ingvarsson í síma: 896-4001, netfang: gylfiing@simnet.is. Viðkomandi tekur einnig á móti umsögnum um verkefni og ábendingum um nýjar gönguleiðir. 

Verkefnisstjórn, fyrir hönd samstarfsaðila, þakkar öllum sem komið hafa að „Brúkum bekki í Hafnarfirði” fyrir frábært samstarf! 

Ábendingagátt