Stutt við heilsueflingu eldri Hafnfirðinga

Fréttir

Endursamið hefur verið við Janus heilsueflingu og býðst Hafnfirðingum, 65 ára og eldri, áfram næstu tvö árin að taka þátt í markvissri heilsurækt hjá þeim.

Góð heilsa Hafnfirðinga sett í fókus!

Hafnfirðingum, 65 ára og eldri, býðst áfram næstu tvö árin að taka þátt í markvissri heilsurækt hjá Janusi heilsueflingu. Bærinn endurnýjaði nýverið samstarf sitt við fyrirtækið. Íbúum bæjarins gefst því kostur á hreyfingu með áherslu á þol- og styrktarþjálfun auk fræðslu um næringu og aðra heilsutengda þætti á niðurgreiddu verði. Ávinningurinn samstarfsins er fjórþættur:

  • að bæta heilsutengdar forvarnir
  • efla hreyfifærni
  • bæta afkastagetu, sér í lagi þol og styrk
  • bæta heilsu og lífsgæði þátttakenda

Markmiðið er að stuðla að betri velferð og heilsu Hafnfirðinga. Horft er til þess að eldra fólk geti, eins lengi og unnt er, búið við eðlilegt heimilislíf og notið lífsins sem allra lengst.

Þjálfun undir leiðsögn

Verkefnið er skipulagt til tveggja ára og sett upp í fjórum sex mánaða þrepum. Heilsufarsmælingar fara fram áður en þjálfun hefst og síðan á sex mánaða fresti eða við lok hvers sex mánaða þreps. Að þeim tíma liðnum eru sett upp skipulögð framhaldsþjálfun fyrir þátttakendur.

Þjálfun er undir leiðsögn háskólamenntaðra heilsuþjálfara þrisvar í viku fyrstu tvö þrepin, styrktarþjálfun tvisvar sinnum í viku og þolþjálfun einu sinni í viku. Stefnt er að aukinni sjálfbærni og auknu heilsulæsi þátttakenda. Til að mæta aukinni sjálfbærni þátttakenda stendur þeim heilsu-app til boða auk þess sem þeir vinna eftir þjálfunaráætlunum, annars vegar fyrir þolþjálfun og hins vegar fyrir styrktarþjálfun.

Til að styðja enn frekar við heilsutengdar forvarnir og auka vægi heilsulæsis og sjálfbærni eru skipulögð fjögur fræðsluerindi um heilsutengda þætti í hverju þrepi, samtals 16 fræðsluerindi á tveimur árum. Sérstök áhersla er lögð á næringu auk annarra heilsutengdra þátta eins og lyfjanotkun og þjálfun, jafnvægi, svefn og heilsu og núvitund.

Janus Guðlaugsson, íþrótta- og heilsufræðingur, og Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri rita undir áframhaldandi samstarf í þágu heilsu Hafnfirðinga.

Bætt heilsa og lífsgæði

Janus Guðlaugsson, íþrótta- og heilsufræðingur, stendur að baki þessa verkefnis. Hann vann doktorsverkefnið Fjölþætt heilsuefling 65+ í Hafnarfirði – Heilsuefling fyrir eldri aldurshópa og hefur á undanförnum árum sérhæft sig í heilsueflingu eldra fólks.

Að baki verkefninu liggja niðurstöður rannsóknar Janusar sem sýna að með markvissri þátttöku í fyrirbyggjandi heilsueflingu eldri aldurshópa megi bæta hreyfigetu, auka afkastagetu þeirra, sér í lagi þol, styrk og hreyfigetu, bæta lífsgæði og koma í veg fyrir hreyfiskerðingu. Þá er markmið einnig að  gera fólk sjálfbæra á eigin heilsueflingu, þannig að það geti í kjölfarið valið sér heilsuræktarstað til að sinna heilsueflingu sinni áfram á eigin forsendum.

Kostnaður og þjónusta

En hvað kostar þjónustan þá? Janus heilsuefling innheimtir mánaðargjöld af þátttakendum. Innifalið í þátttakendagjöldum eru þátttaka í verkefninu, líkamsræktarkort í heilsuræktarstöð í bænum og önnur þjónusta og umsýsla.

Mánaðargjöld þátttakenda við undirritun þessa samnings eru 13.990 kr. fyrir 12 mánaða binditíma og 14.990 kr. fyrir 6 mánaða binditíma.

Hvað annað er innifalið?
  • Kynning verkefnisins í upphafi
  • Reglulegar mælingar
  • Þjálfun allt að þrisvar sinnum í viku fyrir þátttakendur
  • Regluleg fræðsluerindi
  • Aðgengi að heilsu-appi
  • Reglulegt endurmat

Já, það er aldrei of seint að byrja að hreyfa sig! Njótum lífsins saman.

Nánari upplýsingar hjá Janusi heilsueflingu hér.

 

Ábendingagátt