Sveit Fjarðar sigraði bæjarstjórnirnar í boccia

Fréttir

Sveit Fjarðar sigraði á árlegu Þorramóti Fjarðar í boccia sem fram fór um helgina. Að vanda var bæjarstjórnum Hafnarfjarðar, Garðabæjar og stjórn ÍBH boðið til þátttöku. „Gleðin skipti langmestu máli á þessum degi,“ segir Þröstur Erlingsson, formaður íþróttafélagsins Fjarðar, og hughreystir bæjarfulltrúana sem náðu ekki að landa medalíu á þessu móti.

Breitt brosað á boccia-móti helgarinnar

Sveit Fjarðar skipuð Kristínu Ágústu, Dóru og Hlyni sigraði á árlegu Þorramóti Fjarðar í boccia sem fram fór um helgina. Sveit stjórnar ÍBH var í öðru sæti, og Raggi, Siggi og Valli lentu í þriðja sæti. Ingibjörg, Birna og Sigurjón voru í fjórða sæti. Allt lið frá Firði. Hart var barist með gleðina að vopni, mikið hlegið og tengslin styrkt. Að vanda var bæjarstjórnum Hafnarfjarðar, Garðabæjar og stjórn ÍBH boðið til þátttöku. Ekkert liða þeirra bæjarstjórendanda komst ofar en fimmta sæti, þrátt fyrir keppnisskap.

„Ég varð að játa mig sigraðan að lokum og verð að viðurkenna að styrkleikar mínir liggja á öðrum sviðum. Þvílík frammistaða og færni í íþróttinni innan Fjarðar. Þetta er alltaf jafn skemmtilegt,“ segir Valdimar Víðisson sem fór fyrir sveit bæjarstjórnar Hafnarfjarðar. Valdimar bætir við: „Ég var fremstur með jafningja í minni sveit samt sem áður. 

Gefandi árleg keppni

„Gleðin skipti langmestu máli á þessum degi,“ segir Þröstur Erlingsson, formaður íþróttafélagsins Fjarðar. „Það gefur okkar iðkendum mikið að keppa við bæjarfulltrúana. Spennan mikil fyrir deginum og ofsalega gaman. Okkar félagar peppast við að fá bæjarfulltrúana í heimsókn,“ segir hann.

Fulltrúar Fjarðar hafa gott forskot á bæjarfulltrúana. Boccia-æfingar eru tvisvar sinnum í viku. Einnig æfa félagar Fjarðar sundæfingar allt að 7 sinnum í viku, frjálsar og kraftlyftingar.

„Það er nóg að gera,“ lýsir Þröstur og segir um 60 stundi íþróttir með Firði. Öll velkomin að koma og prófa. „Já, bara hafa samband og mæta,“ segir hann en þó að ekkert pláss sé nú laust á boccia-æfingarnar og biðlisti. Íþróttirnar gefi hins vegar fötluðum mikið. Það þekki hann hjá eigin dóttur sem hafi stundað íþróttir í mörg ár.

Markmiðið að fá fleiri á æfingar

„Það er erfitt að fá fötluð börn til að stunda íþróttir. 4% fatlaðra barna stunda þær og við erum að reyna að snúa þessari þróun við. Þetta er svo mikilvægt,“ segir Þröstur. Dagur eins og laugardagurinn sé mikilvægur hlekkur í því. Hann byggi upp skemmtileg tengsl við bæjarfulltrúna.

Kíwanisklúbburinn Sólborg sá um kaffiveitingar í mótshléi og dómarar komu frá Lionsklúbbi Hafnarfjarðar. Þau eru orðin rétt rúmlega 20 árin sem Fjörður, íþróttafélag fatlaðra í Hafnarfirði, hefur haldið Þorramótið. Þátttaka hefur alltaf verið góð, skemmtunin mikil og samhliða hefur félagið og íþróttin fengið góða og verðskuldaða kynningu. 

Já, þetta er skemmtilegt – svo hressandi að allar líkur eru á að gamanið verði endurtekið að ári.

Ábendingagátt