Takk fyrir ævintýrlega jólahátíð 2023!

Fréttir

Jólin voru kvödd formlega í jólabænum Hafnarfirði á fjölmennri og vel heppnaðri Þrettándagleði sem haldin var við Tónlistarskóla Hafnarfjarðar og Hafnarfjarðarkirkju. Starfsfólk Hafnarfjarðarbæjar vill nota tækifærið og þakka af heilum hug og öllu hjarta fyrir hlýlega og góða samveru á aðventunni og yfir jólahátíðina með þökkum fyrir virka þátttöku, einstakan jólaanda og almenna jólagleði.

Takk fyrir þátttökuna. Takk fyrir samveruna. Takk fyrir skemmtunina. Takk fyrir ykkur! 

Jólin voru kvödd formlega í jólabænum Hafnarfirði á fjölmennri og vel heppnaðri Þrettándagleði. Starfsfólk Hafnarfjarðarbæjar vill nota tækifærið og þakka af heilum hug og öllu hjarta fyrir hlýlega og góða samveru á aðventunni og yfir jólahátíðina með þökkum fyrir virka þátttöku, einstakan jólaanda og almenna jólagleði.

Jólaþorpið í Hafnarfirði

Jólaævintýrið í jólabænum Hafnarfirði hófst með Jólaþorpinu í Hafnarfirði árið 2003 og fagnaði því tuttugu ára afmæli. Jólaþorpið hefur með árunum stimplað sig inn sem landsþekktur og vinsæll söluvettvangur fyrir ýmis konar gjafavöru, gómsætt ljúfmeti, handverk og hönnun og í ár komust færri söluaðilar að en vildu í jólahúsin. Opið var í Jólaþorpinu alla föstudaga, laugardaga og sunnudaga frá 17.nóvember til og með 23.desember.  Jólaþorpið og framkvæmd þess er í stanslausri þróun og alltaf eitthvað nýtt, öðruvísi og spennandi að gerast þar. Það sem helst má nefna voru ný upplifunarhús á Thorsplani og grýluhellir! Þúsundir gesta sóttu Jólaþorpið heim í ár sem verður að teljast stórkostlegt.

Hjartasvellið – rúmlega 4.000 manns skautuðu í hjarta Hafnarfjarðar

Frá 10. nóvember – 23. desember var Hjartasvellið opið í samstarfi Hafnarfjarðarbæjar og Bæjarbíó. Hjartasvellið er 200 fermetra skautasvell fyrir ungt fólk á öllum aldri sem fyrst var opnað á aðventunni 2021 við mikinn fögnuð. Hjartasvellið var staðsett fyrir framan Bæjarbíó og Bókasafn Hafnarfjarðar mitt á milli Jólaþorpsins í miðbænum og ljósadýrðarinnar í Hellisgerði. Fjölmargir gestir komu og nutu samveru með vinum og ættingjum á skautum í hjarta Hafnarfjarðar í ár eða rúmlega 4.000 manns.

Best skreyttu húsin og fyrirtækin 2023

Hafnfirðingar og aðrir áhugasamir voru í upphafi desembermánaðar hvattir til að setja upp stóru jólagleraugun og senda ábendingu um þá sem þóttu bera af í jólaskreytingum þetta árið. Fimm sérbýli fengu viðurkenningu í ár fyrir metnað og áræðni og smekklegar og fallegar skreytingar sem ýta undir fegurð húsanna sjálfra og gefa götumyndunum fallegan og jólalegan blæ. Andrea by Andrea fékk viðurkenningu fyrir fallegan jólaglugga fyrir framan verslun sína í miðbæ Hafnarfjarðar, KFC fyrir jólalega og stílhreina skreytingu sem fyllir götuna sannri jólagleði og Tónlistarskóli Hafnarfjarðar fyrir fallega skreytingu í glugga í alfaraleið.

Jólablað Hafnarfjarðar 2023: Jólabærinn Hafnarfjörður

Jólablað Hafnarfjarðar hefur nú komið út í fimm ár og er gefið út í sömu viku og Jólaþorpið opnar ár hvert. Jólablaðið hefur þann eina tilgang að kynna jólabæinn Hafnarfjörð fyrir öllum áhugasömum, gestum og gangandi, og varpa ljósi á hlýleikann og fjölbreytileikann sem býr með fólkinu og fyrirtækjunum í Hafnarfirði. Þessi útgáfa hefur gefist vel og er aðgengileg á rafrænu formi allt árið um kring. Vefútgáfa jólablaðsins 2023

Ljósadýrð í Hellisgerði fram í febrúar

Ljósadýrðin í Hellisgerði mun lifa áfram fram í febrúar. Þúsundir íbúa og vina Hafnarfjarðar nutu þess að baða sig í ljósum í skrúðgarði Hafnfirðinga þessa jólahátíðina líkt og síðustu tvö árin. Þúsundir gesta lögðu leið sína um garðinn þessi jólin og nutu útivistar og upplifunar með fjölskyldu og vinum. Kaffihúsið í Hellisgerði, Litla Álfabúðin, var opin í takti við opnunartíma Jólaþorpsins og þar hægt að kaupa ilmandi kaffi og kakó, margar tegundir af spennandi tei, kökur og bakkelsi. Ljósadýrðin í Hellisgerði mun lifa áfram fram yfir Vetrarhátíð sem haldin verður dagana 1.–3. febrúar og fer m.a. fram í öllum sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins. Þessi hátíð ljóss og myrkurs samanstendur af þrem meginstoðum: Safnanótt, Sundlauganótt og ljósalist með yfir 150 viðburðum á höfuðborgarsvæðinu í heild þar sem fjöldi listamanna tekur þátt í að skapa einstaka stemningu í borginni. Meira um það síðar!

Ábendingagátt