Til hamingju Haukar!

Fréttir

Til hamingju Haukar með 85 árin ykkar. Íþróttir hafa lengi verið hluti af menningu Hafnarfjarðarbæjar. Úr okkar röðum kemur stór hópur afreksfólks á fjölbreyttu sviði sem fær hjörtu okkar til að slá í takt og hafnfirska stoltið til að rísa. 

 

Afmæliskveðja frá Hafnarfjarðarbæ

Það er hverju samfélagi dýrmætt og mikilvægt að hafa innan sinna raða öflug íþróttafélög og einstaklinga sem með sjálfboðastarfi sínu hafa byggt og byggja enn upp faglegt og flott starf gagngert til að virkja einstaklinga á öllum aldri til hreyfingar og heilsubótar. Mikilvægi íþrótta og áhrif þeirra á samfélagið eru margvísleg. Íþróttir stuðla ekki bara að betri heilsu og bættri líðan heldur spila þær líka stórt hlutverk í forvörnum barna og unglinga, framleiðni starfsmanna á öllum aldri, félagslegri þátttöku og heilsusamlegu líferni til lengri tíma litið.  

Íþróttir hafa lengi verið hluti af menningu Hafnarfjarðarbæjar. Úr okkar röðum kemur stór hópur afreksfólks á fjölbreyttu sviði sem fær hjörtu okkar til að slá í takt og hafnfirska stoltið til að rísa.  Afreksfólk sem er góð fyrirmynd fyrir unga fólkið okkar og gangandi dæmi um að draumar geti orðið að veruleika. Hér er um að ræða einstaklinga sem alist hafa upp innan raða t.a.m. Hauka, einstaklinga sem hafa fengið umgjörð, þjálfun og hvatningu við hæfi. Knattspyrnufélagið Haukar hefur svo sannarlega sinnt sínu hlutverki af sóma þau 85 ár sem það hefur verið til. 

Ég er stoltur af afrekum íþróttafólks okkar Hafnfirðinga.  Ég er stoltur af því samfélagi sem Haukamenn hafa byggt upp á Ásvöllum. Ekki síst er ég stoltur af þeim einstaklingum sem taka virkan þátt í skipulögðu starfi í sjálfboðavinnu sinni, áhugans og gleðinnar vegna.

Til hamingju Haukar með 85 árin!

F.h. Hafnarfjarðarbæjar

Haraldur L. Haraldsson, bæjarstjóri

Ábendingagátt