Til hamingju með 117 ára afmælið

Fréttir

Hafnarfjarðarbær fagnar í dag, sunnudaginn 1. júní 2025 og það á sjálfan Sjómannadaginn, 117 ára afmæli. Það er hátíð í bæ og Hafnfirðingar hvattir til að fagna afmælinu og heiðra sjómenn og tengsl bæjarins við sjóinn með heimsókn á höfnina þar sem fjölbreytt dagskrá verður í boði. Auk þess geta Hafnfirðingar og vinir Hafnarfjarðar heiðrað söguna og auðgað eigin anda og þekkingu með heimsókn í Byggðasafn Hafnarfjarðar og Hafnarborg.

Bærinn á afmæli í dag. Við erum 117 ára

Hafnarfjarðarbær fagnar í dag, sunnudaginn 1. júní 2025 og það á sjálfan Sjómannadaginn, 117 ára afmæli. Sveitarfélagið fékk kaupstaðaréttindi þann 1. júní 1908 og óhætt að segja að bærinn hafi síðan þá þroskast og dafnað. Þann 1. júní 1908 bjuggu 1.469 manns í bænum. Nú í ársbyrjun 2025 búa í bænum rétt tæplega 33.000.

Hátíð í Hafnarfirði

Það er hátíð í bæ og Hafnfirðingar hvattir til að fagna afmælinu og heiðra sjómenn og tengsl bæjarins við sjóinn með heimsókn á höfnina þar sem fjölbreytt dagskrá verður í boði. Auk þess geta Hafnfirðingar og vinir Hafnarfjarðar heiðrað söguna og auðgað eigin anda og þekkingu með heimsókn í Byggðasafn Hafnarfjarðar og Hafnarborg. Nýjar sýningar voru opnaðar á báðum söfnum í vikunni. Aðgangur er ókeypis og öll velkomin.

Tvær nýjar sýningar í Hafnarborg  

Sýningarnar Í sátt við efni og anda, þar sem litið er yfir langan og fjölbreyttan feril listamannsins Eiríks Smith, og Óður til lita, sýning á síðari verkum Sveins Björnssonar sem unnin eru af mikilli innlifun og litagleði voru opnaðar á Uppstigningardag.  Sýningarnar eru settar upp í tilefni af því að listamennirnir hefðu báðir fagnað 100 ára afmæli í ár, hefði þeim enst aldur. Opið frá kl. 11-17 alla daga nema þriðjudaga.

Heimsækja vef Hafnarborgar 

Ávallt viðbúin – skátastarf í 100 ár

Sumaropnun Byggðasafns Hafnarfjarðar er hafin og nú eru allar sýningarnar opnar frá kl. 11-17 alla daga. Ný þemasýning Byggðasafns Hafnarfjarðar í Pakkhúsinu að Vesturgötu 6 er sýning til heiðurs skátastarfi í 100 ár sem ber heitið Ávallt viðbúin. Í Pakkhúsinu eru að öllu jöfnu þrjár sýningar í gangi í einu, fastasýning um sögu bæjarins, leikfangasýning og þemasýning. Á sýningum byggðasafnsins færðu að kynnast sögu og menningu Hafnarfjarðar á lifandi, skemmtilegan og fróðlegan hátt. Tvær sýningar eru utandyra, annars vegar á Strandstígnum og hins vegar Köldu ljósin í undirgögnunum undir Lækjargötu við Hamarkotslæk, og því opnar allan sólarhringinn allt árið um kring.

Heimsækja vef Byggðasafns Hafnarfjarðar  

Það er frábær dagur í vændum – njótið!

Ábendingagátt