Tökum öll virkan þátt í Viku6 í viku 6

Fréttir

Vika6 byggir á danskri hugmynd og er tileinkuð því að vekja athygli á mikilvægi kynheilbrigðis og kynfræðslu fyrir börn og ungmenni. Í Hafnarfirði munu margir skólar, allar félagsmiðstöðvar, ungmennahús og Bókasafn Hafnarfjarðar taka virkan þátt í vikunni með fjölbreyttri dagskrá dagana 6. – 12. febrúar.

Ungmennin sjálf velja þema vikurnar og í ár er það kynlíf og kynferðisleg hegðun

Vika6 byggir á danskri hugmynd og er tileinkuð því að vekja athygli á mikilvægi kynheilbrigðis og kynfræðslu fyrir börn og ungmenni. Í Hafnarfirði munu margir skólar, allar félagsmiðstöðvar, ungmennahús og Bókasafn Hafnarfjarðar taka virkan þátt í vikunni með fjölbreyttri dagskrá dagana 6. – 12. febrúar þar sem hugmyndaflug hefur fengið að ráða för. Bókaútstillingar, fræðslumyndbönd, kynfærabakstur, samtalið og fræðsla eru dæmi um dagskrárliði í Viku6 í Hafnarfirði sem betur eru kynntir á hverjum stað fyrir sig.

Mikilvæg skref tekin í Hafnarfirði í takti við óskir ungmenna

Hafnarfjarðarbær hefur samið við Kristínu Blöndal Ragnarsdóttur um að stýra innleiðingu á kynjafræði og kynfræðslu í öllum grunnskólum bæjarins frá og með hausti 2023. Kristín er menntuð kennari og kynjafræðingur og með diplóma í kynfræði frá Háskóla Íslands. Verkefnið er liður í því að mæta óskum ungmennaráðs Hafnarfjarðar sem kallað hafa eftir aukinni fræðslu í takti við tíðarandann og tryggja fræðslu til allra árganga grunnskóla um kynbundið og kynferðislegt ofbeldi. Samhliða uppfyllir framtakið markmið lögbundinna forvarnarteyma í skólum vegna þingsályktunar nr. 37/150 gegn kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi og einelti. Í dag sitja fulltrúar allra grunnskóla í Hafnarfirði í starfshóp sem vinnur að undirbúningi Viku6 og undirbúningi fræðslunnar fyrir komandi skólaár. Vika 6 er frábær undirbúningur fyrir það sem koma skal og er starfshópurinn sammála mikilvægi þess að um að festa Viku6 í sessi í grunnskólum Hafnarfjarðar.

Það er öflugur hópur sem kemur að undirbúningi á Viku6 - hér má sjá nokkra fulltrúa hópsins

Það er öflugur hópur sem kemur að undirbúningi á Viku6 – hér má sjá nokkra fulltrúa hópsins.

Vika6 er mikilvægt forvarnarverkefni

Vika6 er mikilvægt forvarnarverkefni því með aukinni fræðslu má meðal annars minnka hættu á kynsjúkdómum, óráðgerðum þungunum, óheilbrigðum samskiptum, óheilbrigðum samböndum, skaðlegum áhrifum kláms, kynferðislegri áreitni og kynferðislegu ofbeldi. Góð kynfræðsla er ein besta forvörnin gegn kynferðisofbeldi. Um 70% þeirra sem leita til Stígamóta verða fyrir ofbeldi fyrir 18 ára aldur og því mikilvægt að ná sem fyrst til ungmenna með faglega og mikilvæga fræðslu á vettvangi sem þau sækja og treysta.

Allir nemendur í 10. bekk munu fá smokka að gjöf

Reykjavíkurborg hóf hefðina fyrir Viku6 hér á landi og hafa fleiri sveitarfélög í framhaldinu stokkið á vagninn, þar á meðal Hafnarfjarðarbær. Í ár fylgir Hafnarfjarðarbær einnig fordæmi borgarinnar með táknrænni gjöf en allir nemendur í 10. bekkjum Hafnarfjarðar munu í Viku6 fá smokka að gjöf frá sveitarfélaginu sínu.

Hægt er að fylgjast með Viku6 á Instagram: @vika6_island

Ábendingagátt