Varhugavert ástand getur skapast samhliða asahláku á morgun

Fréttir

Á morgun föstudag er gert ráð fyrir asahláku í kjölfar hlýnandi veðurs. Af þessu tilefni er rétt að ítreka hreinsun af snjóhengjum og grýlukertum af húsþökum í dag. Einnig er mikilvægt að hreinsa vel frá niðurföllum til að minnka líkur á að vatn flæði inn í hús og nota sand til að hálkuverja við húsnæði.

Förum varlega í hálkunni næstu daga

Á morgun föstudag er gert ráð fyrir asahláku í kjölfar hlýnandi veðurs eins og komið hefur fram í fréttum frá Veðurstofu Íslands. Eftir langan frostakafla stefnir í að það verði allt að 10 stiga hiti á láglendi með rigningu. Gular viðvaranir eru í kortunum á höfuðborgarsvæðinu vegna þessa. Almenningur er hvattur til að fylgjast vel með stöðu mála og fara varlega.

Skoða húsþök, passa upp á niðurföll og nota sand til hálkuvarnar

Af þessu tilefni er rétt að ítreka við húseigendur að þeir hreinsi snjóhengjur og grýlukerti af húsþökum í dag. Ástæðan er sú að við þessar erfiðu veðuraðstæður geti fólki stafað hætta af þegar snjór og ís fellur niður. Við slíkar aðstæður getur einnig orðið umtalsvert eignatjón. Einnig er mikilvægt að hreinsa vel frá niðurföllum til að minnka líkur á að vatn flæði inn í hús. Talsvert eignatjón getur orðið af slíkum vatnstjónum eins og þekkt er, sem í mörgum tilfellum er hægt að koma í veg fyrir. Einnig er rétt að benda á að ef fólk beitir hálkuvörnum við húsnæði, er ráðlagt að nota sand en ekki salt.

Ábendingagátt