Vegleg gjöf – Frisbígolfkörfur í skóla og íþróttahús

Fréttir

Frisbígolffélag Hafnarfjarðar í samstarfið við Folfdiskar.is færði í gær Hafnarfjarðarbæ 13 frisbígolfskörfur og hundruð diska til að stunda frísbígolf innandyra í grunnskólum Hafnarfjarðarbæjar og íþróttamannvirkjum.

Frisbí fyrir börnin í Hafnarfirði

Frisbígolffélag Hafnarfjarðar í samstarfið við Folfdiskar.is færði í gær Hafnarfjarðarbæ veglega gjöf. Þrettán frisbígolfskörfur og hundruð diska til að stunda frísbígolf innandyra í grunnskólum Hafnarfjarðar og íþróttamannvirkjum.

Tvær kröfur og 30 diskar fara í Víðistaðaskóla, Setbergsskóla, Ásvelli, íþróttahúsið að Strandgötu og Kaplakrika. Ein karfa og 20 diskar fara í Skarðshlíðarskóla, Lækjarskóla og Engidalsskóla.

Vilja efla áhugann

Siggi Gunn, formaður FFH, segir gjöfina lið í að efla frisbígolfáhuga í Hafnarfirði. Félagsmennirnir sextíu hafi safnað fyrir gjöfinni með mótum og árgjöldum. Hún sé andvirði rúmlega einnar milljónar króna. Hann sjái fyrir sér að fá að leiðbeina íþróttakennurum grunnskólanna svo gjöfin nýtist sem best.

„Allar körfur og allir kassar með diskum eru merktir, þannig að það ætti ekki að fara á milli mála hvað á að fara hvert,“ sagði hann við tilefnið.

Takk fyrir hönd bæjarbúa

Valdimar Víðisson bæjarstjóri sagði gjöfina höfðinglega og þakkaði þeim kærlega fyrir hönd bæjarbúa. Mikilvægt væri að fjölskyldur í Hafnarfirði gætu stundað frisbígolf.

Siggi Gunn og Hörður Guðmundsson, stjórnarmaður FFH og annar af tveimur eigendum og forstjóri Folfdiskar.is, afhentu gjöfina, en Frisbígolffélag Hafnarfjarðar er félag áhugafólks um uppbyggingu á frisbígolfi í Hafnarfirði. Það starfar náið með Íslenska frisbígolfsambandinu og öðrum frisbígolffélögum hér á landi.

Byggja upp í Hafnarfirði

Tilgangur félagsins er að byggja upp íþróttina í Hafnarfirði með mótahaldi, kynningum og námskeiðum og halda völlum fyrir frisbígolf við. Nú sem stendur er einn völlur í Hafnarfirði; á Víðisstaðatúni sem settur var upp 2014. Draumur félagsins er að þeir verði fleiri.

Já, eitt stórt takk fyrir þessa veglegu gjöf.

Ábendingagátt