Vegna frétta um könnun Hafnarfjarðarbæjar á símtölum

Fréttir

Því er alfarið hafnað að við þessa rannsókn hafi verið kannað við hverja kjörnir fulltrúar eða aðrir starfsmenn sveitarfélagsins töluðu í síma eins og fullyrt er í fjölmiðlum í dag. .

Í tilefni af fréttum um könnun Hafnarfjarðarbæjar á símtölum starfsmanna sveitarfélagsins vill sveitarfélagið koma eftirfarandi atriðum á framfæri:

Því er alfarið hafnað að við þessa rannsókn hafi verið kannað við hverja kjörnir fulltrúar eða aðrir starfsmenn sveitarfélagsins töluðu í síma eins og fullyrt er í fjölmiðlum í dag. Við rannsókn á gögnum hefur sveitarfélagið gætt að reglum 7. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

Hafnarfjarðarbæ barst kvörtun sem fól í sér ásakanir gagnvart ótilgreindum starfsmönnum bæjarins. Kom fram að starfsmaður undirstofnunar bæjarins hafi verið boðaður á fund en hringt hefði verið í hann úr síma skráðum á Hafnarfjarðarbæ.

Ekkert liggur fyrir um þennan fund hjá bænum eða hver stóð fyrir honum. Nauðsynlegt var að kanna hvort og þá hver hefði hringt í starfsmanninn úr síma sem skráður væri á Hafnarfjarðarbæ en númerið hafði hann ekki tiltækt og ekki heldur nöfn þeirra sem sátu fundinn.

Því var það kannað hvort og þá hver hafi hringt í númer starfsmannsins úr símkerfi Hafnarfjarðarbæjar og í kjölfarið var beiðni send til símafyrirtækisins sem þjónustar sveitarfélagið þar sem óskað var upplýsinga um hvort hringt hefði verið í þetta tiltekna númer á sex klukkustunda tímabili.  Símafyrirtækið svaraði beiðninni með því að afhenda yfirlit yfir öll símanúmer sem hringt hafði verið í.

Einn starfsmaður sveitarfélagsins annaðist rannsóknina og miðaði hún einungis að því að kanna hvort hringt hefði verið í þetta tiltekna símanúmer.  Svo reyndist ekki vera og hefur öllum gögnum sem bárust frá símafyrirtækinu verið eytt.

Ábendingagátt