Verk Eiríks og Sveins sýnd í Hafnarborg

Fréttir

Verk samtímamannanna Eiríks Smith og Sveins Björnssonar verða í Hafnarborg í sumar. Sýningarnar eru settar upp þar sem listamennirnir fæddust fyrir 100 árum.

Samtímamenn í sýningum Hafnarborgar

Tvær nýjar sýningar hafa verið opnaðar í Hafnarborg. Sýningarnar eru Í sátt við efni og anda, þar sem litið er yfir langan og fjölbreyttan feril listamannsins Eiríks Smith, og Óður til lita, sem er sýning á síðari verkum Sveins Björnssonar sem unnin eru af mikilli innlifun og litagleði í Sverrissal safnsins.

Sýningarnar eru settar upp í tilefni af því að listamennirnir hefðu báðir fagnað 100 ára afmæli í ár, hefði þeim enst aldur. Valdimar Víðisson bæjarstjóri opnaði sýningarnar á Uppstigningardag.

Eiríkur Smith: Í sátt við efni og anda

Ferill Eiríks Smith (1925-2016) var í senn langur og margbreytilegur. Hann tókst á við málverkið sem tjáningarform og eftir hann liggja verk sem bera vitni um einstök tök á jafn ólíkum viðfangsefnum og strangflatarlist, tjáningarríku abstraktmálverki og raunsæisverkum. Þar er maðurinn oft í forgrunni en landið og mannanna verk mynda magnþrungna umgjörð. Í gegnum tíðina tók nálgun hans miklum breytingum í takt við tíðarandann en einnig vegna þess að listamaðurinn leitaði meðvitað á nýjar slóðir. Sýningarstjóri er Aldís Arnardóttir.

Sveinn Björnsson: Óður til lita

Sveinn Björnsson (1925-1997) var afkastamikill myndlistarmaður sem var lengst af búsettur í Hafnarfirði. Sveinn vann einkum með málverk en gerði einnig teikningar, klippimyndir og keramikverk. Verkin á sýningunni eru öll frá síðasta tímabili hans þegar hann helgaði sig alfarið abstrakt olíumálverki, þar sem liturinn varð honum bæði yrkisefni og innblástur.

Sýningarstjóri er Sigrún Hrólfsdóttir og stendur sýningin á verkum Eiríks til 17. ágúst og sú á verkum Sveins til 24. ágúst.

 

Opnunartímar Hafnarborgar

  • Mánudagur, 12–17
  • Þriðjudagur lokað
  • Miðvikudagur, 12–17
  • Fimmtudagur, 12–17
  • Föstudagur, 12–17
  • Laugardagur, 12–17
  • Sunnudagur, 12–17

Aðgangur að safninu er ókeypis

Ábendingagátt