Vinna hafin við Nýsköpunarsetur Hafnarfjarðar 

Fréttir

Skapandi og framsækið frumkvöðla- og skólastarf í Hafnarfirði verður styrkt enn frekar með stofnun og opnun á nýju nýsköpunarsetri á fyrstu hæðinni í Menntasetrinu við Lækinn. Verkefnastjórar hafa verið ráðnir til að stýra uppbyggingunni og fengu þeir lyklavöldin í vikunni.  

Menntasetrið við Lækinn (gamli Lækjarskóli) verður hús tækifæra, sköpunar og tækni

Skapandi og framsækið frumkvöðla- og skólastarf í Hafnarfirði verður styrkt enn frekar með stofnun og opnun á nýju nýsköpunarsetri á fyrstu hæðinni í Menntasetrinu við Lækinn. Verkefnastjórar hafa verið ráðnir til að stýra uppbyggingunni, þær Margrét Lena Kristensen og Sólveig Rán Stefánsdóttir,  og afhenti Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar þeim lykla af húsnæðinu í síðustu viku. Í Menntasetrinu við Lækinn er nú þegar á efri hæðum Tæknifræðisetur Háskóla Íslands og ljóst að fjölmörg tækifæri blasa við.  

Menntasetrið við Lækinn er reisulegt og fallegt hús í hjarta Hafnarfjarðar.

Menntasetrið við Lækinn er reisulegt og fallegt hús í hjarta Hafnarfjarðar.

Mikilvægt að Hafnfirðingar eigi hlut í setrinu 

Nýsköpunarsetrið verður skapandi miðstöð fyrir frumkvöðla, fyrirtæki, nemendur og starfsfólk skólanna í sveitarfélaginu sem hefur þann tilgang að ýta undir, efla og styðja við nýsköpun, tæknilæsi, skapandi hugsun og framgang hugmynda á öllum sviðum. Í Hafnarfirði er öflugt menningarstarf, mikil sköpun og framleiðni að eiga sér stað í öflugum og sterkum fyrirtækjum, skapandi skólastarf og mikið af fólki með frábærar hugmyndir og tækifærin því mikil. Áhersla er lögð á fyrirmyndar aðstöðu fyrir alla hópa samfélagsins og rík áhersla lögð á virka þátttöku íbúa og fyrirtækja í bænum við uppbygginguna. Kjarnastarfsemi setursins mun til að byrja með snúa að öflugri þjónustu og þekkingarmiðlun fyrir alla áhugasama og mun aðstaðan byggjast smá saman upp í takti við þarfir, áhuga og tækifæri. Setrið mun bjóða upp á skapandi rými og aðgengi að tæknibúnaði og verður opið öllum áhugasömum. Þá verður þar til staðar framúrskarandi starfsfólk sem hefur brennandi áhuga og þekkingu á nýsköpun til að aðstoða fólk við að auka hæfni sína og koma hugmyndum sínum í framkvæmd. 

Sólveig Rán Stefánsdóttir og Margrét Lena Kristensen eru verkefnastjórar í Nýsköpunarsetri Hafnarfjarðar.

Sólveig Rán Stefánsdóttir og Margrét Lena Kristensen eru verkefnastjórar í Nýsköpunarsetri Hafnarfjarðar.

Hönnun, sköpun og tækni sem hluti af læsi á 21. öldinni  

Aðalnámsskrá skólastiganna leggur áherslu á hönnun og sköpun sem hluta af vísinda-, tækni-, og menningarlæsi á 21. öldinni og ljóst að þverfaglegt samstarf og lausnasköpun mun skipta meira máli í menntun og störfum framtíðarinnar. Hver skóli þarf að hafa möguleika til prófa sig áfram og þróa fjölbreytta kennsluhætti sem styðja aðlögun að síbreytilegu umhverfi og tækniþróun. Þetta framtak Hafnarfjarðarbæjar er liður í því að skapa slíka umgjörð og vettvang til prófunar og þróunar skóla- og frumkvöðlastarfs. Þannig skapast samfélag fjölbreyttra einstaklinga sem vinna saman að nýjum lausnum og þróun tækifæra, samfélaginu öllu til heilla. 

Nánari upplýsingar veita verkefnastjórar Nýsköpunarseturs Hafnarfjarðar: Margrét Lena Kristensen netfang: margretk@hafnarfjordur.is og Sólveig Rán Stefánsdóttir netfang: solveigs@hafnarfjordur.is  

Ábendingagátt