Atvinnulóðir á vaxtarsvæði

Fréttir

Hafnarfjarðarbær auglýsir lausar til umsóknar fjölda atvinnulóða í Hellnahrauni, Kapelluhrauni, Selhrauni og á Völlum miðsvæði fyrir fjölbreytt fyrirtæki í leit að framtíðarstaðsetningu.  Öflugt atvinnulíf er nú þegar á svæðinu, nálægð við alþjóðaflugvöll og höfn mikil og samgöngur greiðar.

Atvinnulóðir fyrir fjölbreytt fyrirtæki

Hafnarfjarðarbær auglýsir lausar til umsóknar atvinnulóðir í Hellnahrauni, Kapelluhrauni, Selhrauni og á Völlum miðsvæði fyrir fjölbreytt fyrirtæki í leit að framtíðarstaðsetningu. Á svæðinu eru lausar tilbúnar lóðir í ört vaxandi iðnaðar- og athafnahverfi. Öflugt atvinnulíf er nú þegar á svæðinu, nálægð við alþjóðaflugvöll og höfn mikil og samgöngur greiðar. Hverfið hefur verið í mikilli uppbyggingu og örum vexti síðustu misseri og aðgengi að verslun, apóteki, bakaríi, veitingastöðum og líkamsrækt á svæðinu orðið mjög greitt. 

Atvinnuhverfi í örum vexti og mikilli uppbyggingu

Kostir atvinnulóða á þessu svæði í Hafnarfirði eru margþættir. Svæðið er í örum vexti og mikil uppbygging að eiga sér stað bæði á íbúðahúsnæði og iðnaðarhúsnæði með tilheyrandi áhrifum á fasteignaverð og verðmæti lóða. Atvinnuhverfinu er skipt upp eftir iðnaði og þannig tilbúið til að taka á móti ólíkum fyrirtækjum af öllum stærðum og gerðum í m.a. ferðaþjónustu, verslun, þjónustu, þekkingariðnaði, framleiðslu, hafnarstarfsemi sem og stóriðju.  Þessi flokkun byggir m.a. á því að flokka saman skylda starfsemi, þannig að hvert fyrirtæki geti valið sér það umhverfi sem því hentar best.

  • Atvinnuhverfi B1 – atvinnustarfsemi á svæði sem skilgreint er sem athafnasvæði. Á athafnasvæðum er fyrst og fremst gert ráð fyrir atvinnustarfsemi þar sem lítil hætta er á mengun, s.s. léttum iðnaði, verslun, skrifstofuhúsnæði, vörugeymslum, hreinlegum verkstæðum og annarri þjónustustarfsemi
  • Atvinnuhverfi B2 – atvinnustarfsemi á svæði sem skilgreint er sem iðnaðarsvæði. Á svæðum í flokki B2 er gert ráð fyrir léttum iðnaði og atvinnustarfsemi sem hefur óverulega mengandi áhrif á umhverfi sitt, svo sem ýmis konar verkstæðum, framleiðsluiðnaði, endurvinnslu og prentþjónustu 
  • Atvinnuhverfi B3 –  atvinnustarfsemi á svæði sem skilgreint er sem iðnaðarsvæði. Á svæðum í flokki B3 fellur þyngri iðnaður sem getur haft neikvæð umhverfisáhrif í för með sér og er háður lögum og reglum um mengunarvarnir. Hér er gert ráð fyrir umfangsmikilli iðnaðarstarfsemi s.s. verksmiðjum, virkjunum, tengivirkjum, veitustöðvum, skólpdælu- og hreinsistöðvum, birgðastöðvum fyrir olíur og móttökustöðvum fyrir úrgang

Ný mislæg gatnamót Reykjanesbrautar og Krýsuvíkurvegar, sem komin eru á samgönguáætlun 2017, munu auka aðgengi að svæðinu enn frekar og opna það enn betur fyrir umferð úr öllum áttum m.a. að höfn og hafnarsvæði, innanlandsflugvelli og millilandaflugvelli auk stærstu umferðaræða til og frá stór-höfuðborgarsvæðinu.

Lóðir tilbúnar til afhendingar – upplýsingar

Meðfylgjandi eru upplýsingar um þær lóðir sem lausar eru á hverju svæði fyrir sig. 
Hér má sjá yfirlitsmynd af svæði til glöggvunar 

  • Hellnahraun 2 –  22 lóðir frá 3.700 – 10.300 m2 að stærð, sem tilbúnar eru til afhendingar. Hellnahraun 2 er skilgreint sem iðnaðarsvæði í flokki B2
  • Hellnahraun 3 – 100 lóðir frá 2.700 – 8.700 mað stærð. Hellnahraun 3 er skilgreint sem iðnaðarsvæði í flokki B1 og B2. Í austasta hluta svæðis er gert ráð fyrir atvinnustarfsemi  í flokki B1.  Aðrar lóðir eru ætlaðar atvinnustarfsemi sem hefur óverulega mengandi áhrif á umhverfi sitt.  43 lóðir eru lausar og tilbúnar til afhendingar nú þegar. Aðrar lóðir eru í fullum frágangi
  • Selhraun norður og Selhraun suður – afmarkast af Krýsuvíkurvegi í vestri og íbúahverfum á Völlum í austri. Á svæðinu eru 7 lóðir frá 2.200 – 6.700 mað stærð. Selhraun er skilgreint sem iðnaðarsvæði í flokki B1
  • Vellir miðsvæði – Vellir miðsvæði afmarkast af Reykjanesbraut í norðri og Ásbraut í suðri.  Á svæði eru tvær lóðir til sölu í kringum 2.700 mað stærð. Vellir miðsvæði er skilgreint sem atvinnu- og þjónustusvæði
  • Kapelluhraun 1 – afmarkast af fyrirhugaðri legu Reykjanesbrautar til norðurs og kvartmílubraut til suður. Á svæðinu eru 13 lóðir frá 3.000 – 30.000 mað stærð. Kapelluhraun er skilgreint sem iðnaðarsvæði í flokki B3

Umsóknir um lóðir

Hver umsókn kostar 3.000.- kr. sem greiðist þegar umsókn er skilað í þjónustuver Hafnarfjarðarbæjar, Strandgötu 6. Umsóknum má líka skila rafrænt í gegnum MÍNAR SÍÐUR á heimasíðu Hafnarfjarðarbæjar.  Greiðsla fyrir umsókn leggist inn á reikning: 0327-26-59, kt. 590169-7579. Vinsamlega sendið kvittun fyrir greiðslu á hafnarfjordur@hafnarfjordur.is. Þjónustuver er opið alla virka daga frá kl. 8-16.  Athugið að eingöngu er úthlutað til lögaðila.

Skilyrt er að eftirfarandi upplýsingar og fylgiskjöl fylgi umsókn

  • Tilgreina skýrt á hvaða svæði sótt er um lóð og æskilega stærð lóðar
  • Gera grein fyrir fyrirhugaðri starfsemi og umhverfisáhrifum hennar
  • Ársreikningur fyrir árið 2015 áritaður af löggiltum endurskoðanda
  • Yfirlýsing lánastofnunar um fjármögnun byggingarframkvæmda 

Þessar upplýsingar má einnig nálgast á upplýsingavef um lausar lóðir eða hér

Nánari upplýsingar gefa starfsmenn þjónustuvers síma: 585-5500 | netfang: hafnarfjordur@hafnarfjordur.is

Ábendingagátt