Björk Jakobsdóttir fjallkona okkar Hafnfirðinga í ár

Fréttir

Fjallkonan eina flutti ljóðið Fjörðurinn minn eftir Egil Þórðarson þegar hún steig á svið á Thorsplani fyrr í dag.

17. júní – Þjóðhátíðardagurinn okkar

Fjallkonan eina flutti ljóðið Fjörðurinn minn eftir Egil Þórðarson þegar hún steig á svið á Thorsplani fyrr í dag á þjóðhátíðardaginn okkar 17. júní. Björk Jakobsdóttir, leikkonan, leikstjórinn, leikskáldið, uppistandarinn brá sér í hlutverki fjallkonunnar í ár.

 

Fjörðurinn minn

Fjörðurinn er alltaf fjölskylda mín;
fjallkonu hreiður er sól á þig skín,
breiðir út faðminn á bjartsýnisstund,
brosir svo svellur oss móður í lund.

Hér búa álfar og yndisleg börn,
að ærslast í skemmtun við lækinn og tjörn,
ég vil þeim skýla með verndandi væng
sem væru þau pökkuð í hlýlega sæng.

Lifandi bærinn sem liggur í sveit
af lífi hann iðar á sérhverjum reit,
í pottum og búðum er pælt mjög og rætt,
á pallborði almennings sanngirni gætt.

Hraunið er fagurt og fjölbreytt að lit
forðum það rann hér um engjar og fit,
daglega veitir það varanlegt skjól,
varla má hugsa sér fegurra ból.

Höfnin er einstök og afburða stáss
iðar af lífi og tekið hvert pláss,
ennþá er lagfært og lagt upp úr því
liggja hér skipin á floti í kví.

Upplandið þjónar sem útivist góð,
við eigum þar Hvaleyrarvatnið sem sjóð,
stundum þar sækir sér fólkið smá frið,
fólk sem er inngilt með margs konar sið.

Við erum bærinn sem býr hér í sveit,
berum í hjartanu vonir um reit
frá vöggu til grafar sem getum við átt,
gefið af reynslu og farið svo sátt.

Fjörðurinn er alltaf fjölskylda mín;
fjallkonu hreiður er sól á mig skín,
breiðir út faðminn á bjartsýnisstund,
brosir svo svellur oss móður í lund.

(Egill Þórðarson)

Ábendingagátt