Blár dagur í Hafnarfirði

Fréttir

BLÁR APRÍL – lífið er blátt á mismunandi hátt! Snillingar á öllum aldri í Setbergsskóla klæddust bláu í dag til vitundarvakningar um málefni barna með einhverfu auk þess að vinna með staðreyndir um einhverfu sem settar hafa verið fram.

BLÁR APRÍL – lífið er blátt á mismunandi hátt! Snillingar á öllum aldri í Setbergsskóla klæddust bláu í dag til vitundarvakningar um málefni barna með einhverfu auk þess að vinna með staðreyndir um einhverfu sem settar hafa verið fram.

Nemendur og kennarar í grunnskólum og leikskólum Hafnarfjarðar fögnuðu fjölbreytileikanum með því að mæta í bláu í dag á alþjóðlegum degi einhverfunnar.  Á þessum degi ár hvert er fólk um allan heim hvatt til að klæðast bláu til að vekja athygli á málefnum einhverfra.  Í Setbergsskóla létu starfsmenn og nemendur það ekki duga að mæta í bláu heldur unnu að fjölbreyttum verkefnum í aðdraganda dagsins þar sem m.a. var unnið með með staðreyndir sem styrktarfélag um einhverfu hefur sett fram.  Efni var útbúið og skólinn skreyttur í tilefni dagsins.  

Berg – námsver fyrir einhverfa

Í Setbergsskóla er starfrækt sérstök einhverfudeild, námsver fyrir nemendur með einhverfu í Hafnarfirði sem hóf starfsemi haustið 2007.  Námsverið starfar eftir hugmyndafræði TEACCH sem Dr. Eric Schopler hannaði og setti fram eftir áralangar rannsóknir á bestu kennsluleiðum fyrir nemendur með einhverfu. Hugmyndafræðin felur í sér skipulagða kennslu sem virkjar sjálfstæði einstaklingsins og stuðlar að því að hann verði öruggur, glaður og fær um að taka eigin ákvarðanir síðar á lífsleiðinni. Skipulögð kennsla er kerfi sem skipuleggur aðstæður, notar verkefni við hæfi og hjálpar nemandanum að skilja til hvers er ætlast af honum.  Til að ná sem mestum árangri er mikilvægt að endurmeta og þróa nám og kennslu einstaklingsins. Rannsóknir á kennslu og þörfum nemenda með einhverfu sýna fram á að mikilvægt sé að nýta sér áhugasvið nemenda til að kenna hefðbundin fög eins og stærðfræði, skrift og lestur.

Með aukinni vitund og þekkingu byggjum við upp samfélag sem er betur í stakk búið til að skilja þarfir einhverfra og virða framlag þeirra til samfélagsins.

#blarapril #allirerueinstakir

Ábendingagátt